29. janúar 2020

Óheimilt að fjarlægja númerslausa bifreið af einkalóð nema kanna málið hjá íbúum

Til að gæta að umhverfissjónarmiðum hafa heilbrigðisyfirvöld heimildir til að fjarlægja lausamuni eins og númerslausar bifreiðar á almannafæri. Gengið er út frá því að það sé gert að undangenginni viðvörun, svo sem með límmiða með aðvörunarorðum. Slíkar heimildir leysa þó stjórnvöld ekki undan því að fylgja reglum stjórnsýsluréttar við meðferð slíkra mála og taka mið af aðstæðum hverju sinni þannig að gætt sé meðalhófs.

Á þetta reyndi þegar heilbrigðiseftirlit lét fjarlægja númerslausa bifreið af einkalóð í kjölfar þess að tilkynning var límd á rúðu bílsins um að hann yrði fjarlægður innan tiltekins tíma aðhefðist eigandinn ekkert. Eigandinn kvaðst ekki hafa vitað af þessum fyrirætlunum og tilkynnti lögreglu að bílnum hefði verið stolið þegar í ljós kom að hann var horfin úr stæði fyrir utan heimili hans.

Heilbrigðiseftirlitið bar að um viðtekin vinnubrögð væri að ræða og staðfesti úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að meðferð málsins hefði verið fullnægjandi í aðdraganda þess að bifreiðin var fjarlægð. Í athugun umboðsmanns reyndi einkum á hvort þessi afstaða nefndarinnar og þá vinnubrögð heilbrigðiseftirlitsins hefðu verið í samræmi við lög.

Í skýringum stjórnvaldanna var vísað til dæma um þá erfiðleika sem heilbrigðiseftirlitið gæti átt með að finna eigendur númerslausra bíla, einkum á almannafæri.  Umboðsmaður benti á að ekki yrði séð að þær skýringar sem byggt hafi verið á í málinu, um að bifreiðin hefði staðið utan bílastæðis á almannafæri og óhægt hefði verið um vik að finna eiganda hennar, ættu við. Óumdeilt væri að bifreiðin hefði staðið á bílastæði inn á einkalóð fyrir framan tvíbýlishús sem eigandinn hefði búið í. Heilbrigðiseftirlitinu hefði verið í lófa lagið að kanna a.m.k. hjá eigendum fasteignarinnar hvort vitað væri hver ætti bifreiðina. Meðal annars í þeim tilgangi að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvort tilefni væri til að draga hana í burtu. Í ljósi aðstæðna hefði eftirlitið átt að leitast við að upplýsa málið betur. Féllst umboðsmaður því ekki á afstöðu úrskurðarnefndarinnar að málsmeðferð heilbrigðiseftirlitsins hefði verið fullnægjandi að þessu leyti. Heilbrigðiseftirlitinu hefði mátt vera ljóst að það að fjarlægja bílinn og flytja til Reykjavíkur, með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn að fá hann til baka, væri verulega íþyngjandi fyrir eigandann.

Að áliti umboðsmanns var ákvörðun Heilbrigðis­eftirlits Suðurnesja og þar með úrskurður úrskurðar­nefndarinnar í málinu ekki í samræmi við lög. Mæltist hann til þess að nefndin tæki málið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis, og leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Jafnframt beindi hann því til bæði nefndarinnar og heilbrigðiseftirlitsins að taka framvegis með af þeim í störfum sínum. Þá beindi umboðsmaður því til eftirlitsins að gæta framvegis betur að þeim sjónarmiðum er vörðuðu hlutverk lægra settra stjórnvalda í kærumálum borgaranna.

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 10008/2019