Umboðsmaður Alþingis hefur á undanförnum árum vakið athygli ráðherra og ráðuneytis sveitarstjórnarmála á mikilvægi stjórnsýslueftirlits þess með sveitarfélögum. Umboðsmaður taldi tilefni til að árétta þau sjónarmið nýlega í tilefni af máli þar sem reyndi á eftirlit ráðuneytisins vegna stjórnsýslukæru.
Umboðsmaður vísaði í þessu sambandi til þess að í athugasemdum með frumvarpi til nýrra sveitarstjórnarlaga sem sett voru á árinu 2011 hefði komið fram að almennt eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélaga hér á landi hefði sögulega verið veikt. Þær breytingar sem gerðar voru á stjórnsýslueftirliti með sveitarfélögum með nýjum sveitarstjórnarlögum árið 2011 hafi verið til að styrkja eftirlit ráðherra og ráðuneytis sveitarstjórnarmála með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt lögunum og öðrum löglegum fyrirmælum. Þar hefði verið lögð áhersla á að tryggja ætti að eftirlit ráðuneytisins væri samþætt þeirri starfsemi sem færi að öðru leyti fram í ráðuneytinu, m.a. í því skyni að sú þekking sem því fylgdi að fást við slík verkefni skiluðu sér inn í ráðuneytið við stefnumótun um málefni sveitarfélaga á hverjum tíma.
Í ljósi áðurnefndra ummæla um sögulega veikt eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélaga hér á landi er ástæða til að minna á að staða þessara mála hér á landi hefur vikið verulega frá því sem verið hefur, t.d. í Danmörku og Noregi, sem búa um margt við áþekkar réttarreglur um stöðu og starfshætti sveitarfélaga. Þar hefur þetta eftirlit af hálfu ríkisins lengi verið virkt og verið mótandi um heimildir og starfshætti sveitarfélaga þegar kemur að úrlausn þeirra í málum íbúa sveitarfélaganna og framkvæmd þeirra lagareglna sem löggjafinn hefur falið þeim að sinna. Ekki síst hefur þetta eftirlit fengið aukið vægi í nágrannalöndunum samhliða því að verkefni sveitarfélaganna við þjónustu og ákvarðanatöku í þágu borgaranna hafa verið aukin og réttaröryggisreglur í samskiptum stjórnvalda og borgaranna hafa verið styrktar.
Þessar breytingar á sveitarstjórnarlögunum urðu umboðsmanni tilefni til þess að fjalla sérstaklega í skýrslu sinni til Alþingis árið 2017 um þörfina á umbótum er varðaði frumkvæðiseftirlit ráðuneytisins með sveitarfélögum sem fjallað er um í 112. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Ráðuneytið upplýsti umboðsmann í kjölfarið um úrbætur sem það ætlaði að gera á því sviði. Aftur á móti reyndi í því máli sem umboðsmaður lauk nýverið með áliti á eftirlit ráðuneytisins á grundvelli stjórnsýslukæru samkvæmt 111. gr. laganna. Benti umboðsmaður á að slík kæra væri önnur leið ráðuneytisins til að þess að hafa eftirlit með því að sveitarfélög hagi málsmeðferð og ákvarðanatöku í þeim málum sem þau fara með í samræmi við lög. Athugun hans á umræddu máli hefði, ásamt fleiri málum vegna stjórnsýslukæra, orðið honum tilefni til að vekja athygli ráðuneytisins á mikilvægi þess að tryggja að fyrir hendi væri nægjanleg þekking og færni innan ráðuneytisins til þess að takast á við þessi verkefni.
Í málinu reyndi á málsmeðferð samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins vegna kæru lífsskoðunarfélags vegna synjunar Reykjavíkurborgar á því að félaginu yrði úthlutuð lóð án endurgjalds. Umboðsmaður taldi að ráðuneytið hefði ekki rannsakað málið með fullnægjandi hætti og þar með ekki lagt fullnægjandi grundvöll að úrlausn sinni. Í ljósi áherslu ráðuneytisins á sjálfstjórn sveitarfélaga við meðferð málsins benti hann á að sú staða veiti þeim þó ekki heimild til að haga málum eins og þeim þyki best henta heldur þurfi þau að fylgja þeim almennu reglum sem gildi um ákvarðanir sem þessar, eins og önnur stjórnvöld.
Beindi hann þeim tilmælum til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að taka umrætt mál til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og leysa þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Jafnframt að ráðuneytið tæki framvegis mið af þeim í störfum sínum, þar með talið um úrbætur við framkvæmd stjórnsýslueftirlits þess með sveitarfélögum.
Álit umboðsmanns í máli nr. 10128/2019