03. júní 2020

Dómsmálaráðuneytið enn beðið um svör vegna tafa hjá sýslumanni höfuðborgarsvæðisins

Umboðsmaður hefur nú óskað eftir nánari upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu um það hvað felst í boðuðum aðgerðum vegna tafa við afgreiðslu fjölskyldumála hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og hvernig þeirri vinnu miði, sé hún hafin.

Fyrr á árinu spurði umboðsmaður ráðherra af sama tilefni hvort ráðuneytið hefði eða hygðist grípa til einhverra aðgerða vegna þessara tafa. Í svari þess kemur m.a. fram að þegar hafi tekist að stytta biðtíma vegna þinglýsinga og skráninga og þá eigi að verja ákveðnu fé til að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu geti sinnt verkefnum sínum innan eðlilegra tímamarka. Jafnframt er greint frá því að frekari aðgerðir séu í undirbúningi og væntanlegar á næstunni til að greiða úr vandanum.

Þrátt fyrir þetta hafa umboðsmanni áfram borist ábendingar um tafir á afgreiðslu á ýmsum málefnasviðum hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Þá er ljóst af opinberum upplýsingum um afgreiðslutímann að hann hefur dregist verulega úr hófi fram, einkum í fjölskyldumálum, en ein ástæða þess að umboðsmaður hóf þessa athugun er hversu áríðandi það er, á því sviði sérstaklega, að úrlausn liggi fyrir á sem skemmstum mögulegum tíma. Einkum m.t.t. hagsmuna og líðan þeirra barna sem eiga í hlut og foreldra þeirra þegar um umgengni- og forsjármál er að ræða.

Vill umboðsmaður fá upplýsingar frá dómsmálaráðuneytinu fyrir 24. júní nk. um hvað felist nánar tiltekið í þeim aðgerðum sem séu fyrirhugaðar vegna þessa langa afgreiðslutíma fjölskyldumála hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og hvernig vinnu við þær miði, sé hún hafin.

 

Bréf umboðsmanns til dómsmálaráðuneytisins

 

Tengdar fréttir

Dómsmálaráðherra beðinn um svör vegna stöðu mála hjá sýslumanni höfuðborgarsvæðisins