08. júlí 2020

Skilyrði fyrir próftöku í dómtúlkun skorti lagastoð

Lög geta mælt fyrir um kröfur sem gerðar eru til þeirra einstaklinga sem óska eftir að fá löggildingu í samræmi við starfsheiti sitt, t.d. um menntun eða hæfni að öðru leyti. Lagafyrirmæli um inntak og fyrirkomulag slíkra leyfa og þeirra skilyrða verða þó að vera skýr og glögg í samræmi við þær kröfur stjórnarskrár sem gerðar eru þegar takmarka á atvinnufrelsi fólks.

Á þetta reyndi í máli þar sem löggiltur skjalaþýðandi hafði leitað til umboðsmanns og kvartað yfir því að sýslumaður hefði synjað viðkomandi um að taka próf í dómtúlkun með vísan til þess að skilyrði fyrir próftöku væri að hann væri löggiltur skjalaþýðandi á íslensku yfir í erlent mál og öfugt. Dómsmálaráðuneytið hafði staðfest þá ákvörðun.

Í lögum um dómtúlka og skjalaþýðendur er mælt fyrir um hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að öðlast löggildingu sem skjalaþýðandi og dómtúlkur. Þar kemur m.a. fram að standast þurfi viðeigandi próf en einnig að sá einn geti hlotið löggildingu sem dómtúlkur sem jafnframt er löggiltur sem skjalaþýðandi. Umboðsmaður benti á að ekki væri í lögum kveðið á um það skilyrði sem stjórnvöld hefðu byggt á í málinu eða mætti leiða það af lögskýringargögnum eða reglugerð. Túlkun stjórnvalda og framkvæmd að þessu leyti leiddi til þess að skorður hefðu verið settar fyrir því að þreyta próf í dómtúlkun og slíkar kröfur þyrftu að uppfylla kröfur stjórnarskrár um lagaheimild og skýrleika hennar.

Með vísan til þessa taldi umboðsmaður lög um dómtúlka og skjalaþýðendur ekki fela í sér fullnægjandi lagaheimild fyrir stjórnvöld til að byggja á að skjalaþýðendur þurfi að hafa próf í báðar áttir til að þreyta próf í dómtúlkun. Mæltist hann til þess að ráðuneytið tæki málið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis, og leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.

 

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 10225/2019