31. ágúst 2020

Skýrsla umboðsmanns fyrir árið 2019 komin út

Skýrsla umboðsmanns Alþingis er að þessu sinni eingöngu gefin út í rafrænni útgáfu. Skýrslan hefur fyrst og fremst þann tilgang að gera Alþingi grein fyrir fyrir starfsemi umboðsmanns á liðnu ári og hvernig stjórnvöld hafa brugðist við tilmælum og ábendingum umboðsmanns.

Í skýrslunni er fjallað um starfsemi umboðsmanns á liðnu ári, greint frá úrlausnum mála og viðbrögðum stjórnvalda við tilmælum og ábendingum ásamt því að birta helstu tölfræði er að starfinu lítur. Að þessu sinni er skýrslan eingöngu birt á heimasíðu umboðsmanns þar sem áhugasamir geta nálgast hana til aflestrar og prentað út. Það er bæði í samræmi við umhverfissjónarmið og þær breytingar sem gerðar hafa verið á útgáfu og meðferð rafrænna þingskjala enda hefur verið stefnt að því að rafræn útgáfa skýrslunnar myndi leysa þá prentuðu af hólmi í fyllingu tímans.

Eftir þær breytingar sem orðið hafa á birtingu frétta og upplýsinga á vef umboðsmanns um niðurstöður í einstökum málum jafnóðum og  þær liggja fyrir er minni  þörf á að gera ítarlega grein fyrir einstökum málum í ársskýrslunni. Í þessari skýrslu er haldið áfram á þeirri braut að stytta þá umfjöllun sem birt er um einstök mál og nýta þann möguleika sem rafræn útgáfa skýrslunnar gefur til þess að þeir sem vilja kynna sér einstök mál frekar geti með því að smella á viðeigandi hlekk hverju sinni komist í þær upplýsingar sem birtar eru um málið í gagnasafni á vefsvæði umboðsmanns.

Efst á baugi

Liðlega 400 mál voru skráð ný hjá umboðsmanni í fyrra sem er svipað og meðaltal undanfarinna fimm ára. Umboðsmaður skilaði áliti í 17 málum samanborið við 27 árið áður og 14 árið 2017. Undanfarin ár hefur álitum farið nokkuð fækkandi og stjórnvöldum í ríkara mæli sent ábendingarbréf um tiltekin atriði sem betur mega fara. Þetta á til að mynda við um atriði sem umboðsmaður hefur ítrekað gert athugasemdir við í álitum sínum og telur ekki tilefni til að taka enn á ný til umfjöllunar nema í tengslum við önnur atriði.

Árið 2019 var fyrsta heila starfsár OPCAT-eftirlits sem Alþingi samþykkti með lögum í desember 2018 að fela umboðsmanni. Það felur í sér að heimsækja og taka út aðbúnað á stöðum þar sem fólk dvelur sem kann að vera svipt frelsi sínu. Auk skoðunar á aðbúnaði og starfsháttum er rætt í trúnaði við þá sem dvelja á stöðunum, starfsfólk og fleiri ef tilefni þykir til. Þá er hugað að lagalegri umgjörð starfseminnar og réttarstöðu vistmanna. Frá því að eftirlit umboðsmanns hófst hefur verið farið í fimm heimsóknir og tvær skýrslur liggja fyrir.

Hvað snertir mál sem umboðsmaður tekur upp að eigin frumkvæði þá hefur ekki reynst unnt að sinna þeim sem skyldi undanfarin ár. Stafar það fyrst og fremst af takmörkuðum mannafla til að sinna þessu verkefni samhliða auknu álagi við úrvinnslu kvartana og hið nýja verkefni, OPCAT-eftirlitið. Í skýrslunni er bent á að sú staða að umboðsmaður geti ekki sinnt frumkvæðiseftirliti sínu svo viðunandi sé geti bæði haft áhrif á það traust sem mikilvægt er að starf hans njóti hjá borgurunum og leitt til þess að starfsemi umboðsmanns stuðli ekki að þeim umbótum í starfi stjórnsýslunnar sem ætlunin er samkvæmt lögum.

Tilmæli og ábendingar til stjórnvalda

Álitin 17 í fyrra gáfu umboðsmanni tilefni til að senda 18 stjórnvöldum tilmæli. Tólf þeirra hafa farið að tilmælunum, hjá þremur var málið enn til meðferðar þegar svar barst við fyrirspurn umboðsmanns um stöðu þess, í einu tilviki var ekki leitað aftur til stjórnvalds og þá varð ekki annað ráðið en í tveimur tilvikum hefði ekki verið farið að tilmælum umboðsmanns til stjórnvalds. Hvað almenn tilmæli hans snerti hafði verið farið að þeim í 18 tilfellum en ekki í tveimur. Þá  sá umboðsmaður í 38 tilvikum ástæðu til að senda stjórnvöldum ábendingar um tiltekin atriði sem betur mættu fara í stjórnsýslunni og ástæða væri fyrir þau að taka til skoðunar.

 

Skýrsla umboðsmanns fyrir árið 2019