06. október 2020

Hæfi ráðherra og nefndarmanns til að taka ákvarðanir þegar verkefni skarast

Umboðsmaður hefur vakið athygli stjórnvalda á að álitamál kunni að koma upp þegar sama stjórnvaldi hafi með lögum verið falið að fara með tvö eða fleiri verkefni sem skarast með einhverjum hætti. Þetta geti skapað tortryggni gagnvart stjórnvaldi um að afstaða þess í tilteknu máli kunni að litast af fyrri aðkomu þess eða sérstökum tengslum við málið. Þá þurfi að sama skapi að huga að traustssjónarmiðum þegar almennt hæfi nefndarmanna í opinberum nefndum sé metið. 

Kvörtun sem umboðsmanni barst varð honum tilefni til að fjalla almennt um hæfisreglur stjórnsýsluréttarins og sjónarmið sem reynir á við mat á hæfni í stjórnsýslunni þegar svona háttar til. Í málinu reyndi m.a. á ákvörðun dómsmálaráðherra að synja manni um gjafsókn til málshöfðunar gegn íslenska ríkinu, þar sem m.a. dómsmálaráðherra var stefnt fyrir hönd þess.

Umboðsmaður benti á að bæði í Danmörku og Noregi hefðu aðstæður sem þessar áhrif á hæfi og að jafnt óskráðar grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins og stjórnsýslulög hér á landi hefðu tekið mið af réttarþróun þessara mála í löndunum tveimur. Þar sé gengið út frá því að það geti ekki samrýmst að dómsmálaráðherra taki ákvörðun um hvort veita eigi gjafsókn í máli sem ætlunin sé að höfða og varði ákvarðanir eða málefnasvið hans og ráðuneytis hans.  Ástæða sé til að gefa traustssjónarmiðum aukinn gaum hér á landi til að styrkja tiltrú borgaranna á stjórnsýslunni.

Í kvörtuninni voru einnig gerðar athugasemdir við að forseti Landsréttar sæti í gjafsóknarnefnd og af því tilefni fjallaði umboðsmaður almennt um hæfi nefndarmanna í opinberum nefndum. Minnti hann á þrískiptingu ríkisvaldsins og afstaða sín væri að þeir sem tækju ákvarðanir innan framkvæmdarvaldsins ættu almennt að taka mið af þeirri stöðu til að skapa ekki óvissu meðal borgaranna um aðskilnað milli framkvæmdarvalds og dómsvalds. Þar með væri því trausti sem þyrfti að ríkja hjá borgurunum haldið við, sérstaklega gagnvart því að dómstólar og þeir sem koma að dómstörfum þar séu óháðir.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til dómsmálaráðherra og ráðuneytis hans að hafa þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu framvegis í huga í störfum sínum við úrlausn gjafsóknarmála og við skipan nefndarmanna í opinberar nefndir. Þar sem í álitinu er hreyft við álitamáli sem getur haft almenna þýðingu á mörgum sviðum sendi umboðsmaður það jafnframt til forsætisráðherra og ráðherra sveitarstjórnarmála.

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 9629/2018