06. nóvember 2020

Fólk á biðlista sveitarfélags eftir húsnæði getur átt rétt á að kæra ákvörðun um úthlutun

Niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála um að vísa frá kæru fatlaðs einstaklings á ákvörðun Reykjavíkurborgar um úthlutun húsnæðis var ekki í samræmi við lög.

Einstaklingur sem hafði fengið samþykkta umsókn um sértækt húsnæðisúrræði hjá Reykjavíkurborg vegna fötlunar og verið á biðlista um árabil var tilnefndur í tiltekið húsnæði ásamt öðrum á biðlista. Þegar húsnæðinu var úthlutað öðrum kærði einstaklingurinn þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði kærunni frá þar sem viðkomandi væri enn á biðlista og ekki lægi því fyrir endanleg stjórnvaldsákvörðun í máli.

Umboðsmaður benti á að úthlutun um sértækt húsnæðisúrræði væri stjórnvaldsákvörðun og því reyndi á hvort viðkomandi hefði átt aðild að slíku máli og gæti þar með kært það til úrskurðarnefndarinnar. Með vísan til réttaröryggis og þess að hagsmunir umsækjenda um sértækt húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk nytu sérstakrar viðurkenningar og verndar í lögum hefðu umsækjendur um slík úrræði verulega hagsmuni af því að teljast aðilar máls. Þeir hagsmunir væru meðal annars fólgnir í því að umsækjendur gætu fengið upplýsingar um á hvaða sjónarmiðum hefði verið byggt við úthlutun og þá einnig um samanburð á þeim og öðrum umsækjendum. Hagsmunir umsækjenda gætu einnig falist í tækifærum þeirra til að koma athugasemdum sínum á framfæri við meðferð málsins og kæra ákvörðun til annars stjórnvalds.

Með hliðsjón af málavöxtum og þeim hagsmunum sem voru í húfi í málinu taldi umboðsmaður að viðkomandi hefði átt aðild að stjórnsýslumálinu og gæti þar með kært málið til úrskurðarnefndar velferðarmála. Frávísun nefndarinnar á kærunni hefði því ekki verið í samræmi við lög. Beindi umboðsmaður því til úrskurðarnefndarinnar að hún tæki málið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni um það, og leysti þá úr málinu í samræmi við álitið.  Reykjavíkurborg var einnig sent afrit af álitinu til upplýsinga með það í huga að metið yrði hvort tilefni væri til að taka almennt verklag í þessum efnum til skoðunar. 

    

Álit umboðsmanns í máli nr. 9963/2019