11. nóvember 2020

Efni erinda ræður úrslitum, ekki form

Stjórnvöld geta ekki gert strangar kröfur til þess að erindi séu sett fram í ákveðnu formi, ef ekki hefur verið leiðbeint sérstaklega um það

Settur umboðsmaður Alþingis taldi að úthlutunarnefnd samkvæmt lögum nr. 91/2007, um bókmenntir, hefði átt að miða við að rithöfundur hefði með tölvupósti sem hann sendi árið 2005 lagt fram ósk um greiðslu úr bókasafnssjóði höfunda. Í tölvupóstinum hafði rithöfundurinn, sem skrifar undir nafninu Stella Blómkvist, óskað eftir upplýsingum um hvernig hann gæti fengið greiðslur úr bókasafnssjóði höfunda. Við meðferð málsins miðaði úthlutunarnefnd hins vegar við að hann hefði fyrst óskað eftir greiðslum árið 2012 en fram að því hefði einungis verið um fyrirspurnir að ræða.

Settur umboðsmaður féllst ekki á afstöðu nefndarinnar. Taldi hann að erindi höfundarins frá 2005 hefði borið skýrlega með sér að höfundurinn vildi fá greitt fyrir notkun bóka sinna á bókasöfnum. Ekki væri hægt að gera strangar kröfur um form erinda að þessu leyti.  Auk þess hefði úthlutunarnefndin ekki veitt viðkomandi leiðbeiningar um form umsóknar. Tölvupóstur höfundarins hafi því falið í sér upphaf stjórnsýslumáls sem borið hefði að leiða til lykta með ákvörðun. Þegar erindi barst að nýju árið 2012 bar nefndinni að hafa hliðsjón af því að málið hefði ekki verið sett í réttan farveg á sínum tíma og taka afstöðu til þess hvaða þýðingu það hefði fyrir rétt rithöfundarins til greiðslna á því tímabili sem kvörtunin tók til. Settur umboðsmaður mæltist til  að nefndin tæki málið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis, og leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væri í álitinu.

Þetta er í annað sinn sem settur umboðsmaður fjallar um kvörtun þess sem skrifar undir nafni Stellu Blómkvist í áliti. Árið 2018 komst settur umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að sú afstaða úthlutunarnefndarinnar, að rithöfundur sem noti dulnefni gæti ekki fengið greiðslur fyrir útlán á bókasöfnum nema gefa upp nafn sitt, væri of fortakslaus og ekki loku fyrir það skotið að hann gæti fært sönnur fyrir því með öðrum hætti að hann ætti rétt á greiðslum.

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 10234/2019

Álit umboðsmanns í máli nr. 9211/2017