18. nóvember 2020

Upplýsingar í fasteignaskrá eiga að vera réttar

Opinber skráning á upplýsingum um fasteignir á að endurspegla raunverulega skipan mála. Ef misræmi er þar á milli geta þeir sem eiga hagsmuna að gæta fengið skráningu endurskoðaða.  

Settur umboðsmaður telur að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hafi ekki byggt á réttum grundvelli þegar það staðfesti ákvörðun Þjóðskrár Íslands um að synja beiðni um að leiðrétta skráningu fasteignar. Laut beiðnin að því að upplýsingar um fjölda eignarhluta í fjöleignarhúsi yrðu endurskoðaðar. Ráðuneytið byggði á að núverandi upplýsingar í fasteignaskrá, um að eignarhlutarnir væru þrír, ættu stoð í sameignarsamningi um viðkomandi hús. Því hefðu ekki verið gerð mistök við skráningu upplýsinganna.

Settur umboðsmaður féllst ekki á þessa afstöðu. Benti hann á að af sameignarsamningnum yrði ekki annað ráðið en eignarhlutarnir hefðu verið fjórir og það hefði haldist óbreytt. Því skorti á að ráðuneytið hefði lagt viðhlítandi grundvöll að málinu og þar með að úrskurður þess hefði verið í samræmi við lög. Mæltist hann til þess að ráðuneytið tæki málið til meðferðar á ný, kæmi fram beiðni þess efnis, og leysti þá úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu. Jafnframt sendi hann álitið til Þjóðskrár Íslands til upplýsinga.

   

Álit setts umboðsmanns í máli nr. 10480/2020