06. janúar 2021

Ákvörðun um laun forstöðumanna ríkisstofnana er stjórnvaldsákvörðun

Stjórnsýslulög gilda um ákvarðanir fjármála- og efnahagsráðherra um laun forstöðumanna ríkisstofnana og sá sem gegnir starfinu þegar slík ákvörðun er tekin er aðili máls. Þetta er álit setts umboðsmanns Alþingis.

Tveir forstöðumenn ríkisstofnana kvörtuðu yfir ákvörðunum ráðherra um laun fyrir störf þeirra og gerðu athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að stjórnsýslulög ættu ekki við í slíkum tilvikum. Byggði ráðuneytið á að ákvörðun um laun forstöðumanna væru almenn stjórnvaldsfyrirmæli sem beindust ekki að þeim sem gegndi starfi forstöðumanns hverju sinni og fjárhagslegir hagsmunir viðkomandi tengdust því ekki úrlausn málsins. Ráðuneytið hafnaði því beiðnum forstöðumannanna um rökstuðning og aðgang að málsgögnum.

Settur umboðsmaður benti á að ákvarðanir um laun forstöðumanna væru teknar einhliða á grundvelli laga og vörðuðu lögbundinn rétt þeirra til launa. Hagsmunir þeirra af því að eiga aðild að ákvörðunum sem hafi bein áhrif á laun þeirra væru þannig að þeir nytu stöðu aðila máls samkvæmt stjórnsýslulögum. Grundvallarmunur væri á stöðu forstöðumanna ríkisstofnana og almennra ríkisstarfsmanna að þessu leyti þar sem þeir síðarnefndu semdu almennt um laun og fengju greitt samkvæmt kjarasamningi.

Beindi settur umboðsmaður því til ráðuneytisins að taka erindi forstöðumannanna til meðferðar að nýju, kæmu fram beiðnir þess efnis, og leysa þá úr þeim í samræmi við þau sjónarmið sem rakin voru í álitinu. Jafnframt var mælst til þess að ráðuneytið tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

 

 

Álit setts umboðsmanns í málum nr. 10343/2019 og 10475/2020