08. janúar 2021

Samráð og aðkoma almennings að skipulagsmálum sveitarfélaga

Kvartanir og ábendingar urðu til þess að vekja athygli umboðsmanns á því hvort málsmeðferð sveitarfélaga í skipulagsmálum hafi verið í nægjanlegu samræmi við réttarþróun og markmið skipulagslaga. Sú þróun hefur m.a. tekið mið af því að auka samráð og aðkomu almennings að málum á undirbúningsstigi og möguleika til að koma þá þegar að ábendingum og athugasemdum.

Athugun þessara mála varð til þess að samhliða því að settur umboðsmaður tilkynnti þeim sem borið höfðu fram umræddar kvartanir, um lyktir athugunar hans á þeim, sendi hann Skipulagsstofnun bréf með upplýsingum og ábendingum um álitaefni sem tengjast skipulagsáætlunum sveitarfélaga og leyfum sem veitt eru á grundvelli þeirra.

Í bréfi sínu til Skipulagsstofnunar rakti settur umboðsmaður að sveitarfélög yrðu að haga undirbúningi skipulagsbreytinga og leyfisveitinga þannig að bæði almenningur og þeir sem hefðu hagsmuna að gæta hefðu möguleika á að fylgjast með framgangi slíkra mála og gera athugasemdir. Þannig þyrfti málsmeðferð, þ.m.t. kynning, við leyfi til framkvæmda og bygginga sem veitt eru á grundvelli skipulags að taka mið af því að þeir sem málið kynni að varða gætu í heild áttað sig á því hvað felst í umræddri framkvæmd eða byggingu

Settur umboðsmaður lýsti í bréfinu álitaefnum sem komið hefðu inn á borð umboðsmanns og endurspegluðu þessa stöðu. Þá rakti settur umboðsmaður dæmi þar sem dregið gæti úr trausti til stjórnsýslu sveitarfélaga á þessu sviði.

Settur umboðsmaður óskaði eftir að Skipulagsstofnun upplýsti hann fyrir 1. mars nk. hvort hún telji tilefni til að bregðast við bréfi hans og þá hvernig. Hann myndi þá á grundvelli svarsins taka afstöðu til þess hvort tilefni væri til þess að hann tæki atriðin sem fjallað er um í bréfinu til frekari athugunar að eigin frumkvæði.

    

Bréf setts umboðsmanns til Skipulagsstofnunar