12. janúar 2021

Óviðunandi afgreiðslur stjórnvalda á beiðnum um upplýsingar og gögn í ráðningarmálum

Stjórnvöld hér á landi eiga almennt nokkuð í land með að beita reglum um aðgang að gögnum með viðunandi hætti. Þörf er bæði á viðhorfsbreytingu og aukinni fræðslu innan stjórnsýslunnar að því er fram kemur í áliti setts umboðsmanns.

Í álitinu segir m.a. að stjórnvöld hafni of oft beiðnum um upplýsingar og gögn í ráðningarmálum án þess að slíkar synjanir byggi á fullnægjandi lagagrundvelli og að vísað sé til réttra lagareglna. Þá virðist stjórnvöld ekki alltaf gera sér grein fyrir hlutverki sínu við þessar ákvarðanir, sér í lagi þegar einkaaðilar hafi komið að meðferð beiðnanna.

Kvartanir er snertu rétt umsækjenda um opinbert starf til aðgangs að gögnum máls urðu settum umboðsmanni tilefni til að fjalla um helstu álitamál sem þar getur reynt á. Í álitinu er meðal annars bent á að þegar reynir á samspil stjórnsýslulaga og annarra laga þurfi að gæta þess að upplýsingaréttur aðila máls samkvæmt stjórnsýslulögum er mun ríkari en réttur almennings samkvæmt upplýsingalögum. Þá takmarki persónuverndarlögin ekki þann rétt til aðgangs að gögnum sem mælt er fyrir um í stjórnsýslulögum. Í álitinu er einnig fjallað um hvort og þá hvaða gögn geti verið undanþegin upplýsingarétti sem vinnuskjöl, takmarkaðan upplýsingarétt vegna hagsmuna annarra, skráningu og varðveislu upplýsinga, meðferð beiðna um upplýsingar og trúnaðarmerkingu gagna.

Settur umboðsmaður sendi álitið til þeirra stjórnvalda sem í hlut áttu í þeim málum sem voru til umfjöllunar, ásamt ábendingum um að hafa þau sjónarmið sem þar væru rakin framvegis í huga í störfum sínum. Jafnframt var athygli fjármála- og efnahagsráðherra, sem fer með starfsmannamál ríkisins, vakin á álitinu. Annars vegar til þess að Kjara- og mannauðssýsla ríkisins gæti haft hliðsjón af því í ráðgjöf og leiðbeiningum til forstöðumanna ríkisstofnana. Hins vegar var því beint til ráðuneytisins að meta hvort kynna ætti umfjöllunina almennt forstöðumönnum ríkisstofnana. Þar sem ákvarðanir sem vikið er að í álitinu snerta einnig ráðningar í störf hjá sveitarfélögum var það jafnframt sent samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Þá var athygli forsætisráðuneytisins, sem fer með framkvæmd stjórnsýslulaga, vakin á þeim álitaefnum sem kann að reyna á við afgreiðslu beiðna um aðgang að gögnum máls og hvernig þau horfa við ákvæðum stjórnsýslulaga.

 

 

Álit setts umboðsmanns í máli nr. 10886/2020