Í dag hófst heimsókn setts umboðsmanns og starfsmanna hans í fangageymslur lögreglunnar á Suðurnesjum þar sem aðbúnaður og starfshættir eru skoðuð í tengslum við OPCAT-eftirlit umboðsmanns.
Fyrir heimsóknina var haldinn undirbúningsfundur með lögreglunni á Suðurnesjum og ríkislögreglustjóra og ýmissa gagna og upplýsinga aflað í kjölfarið. Meðal þess sem skoða á er aðbúnaður í fangageymslunni við Hringbraut í Reykjanesbæ, sem tekin var í notkun árið 1980.
Í eftirlitinu felst að taka út starfsemi á stöðum þar sem einstaklingar dvelja sem eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu. Í heimsókninni nú verður lögð er áhersla á trúnaðarsamtöl bæði við þá sem vistaðir eru á staðnum og starfsfólk ásamt almennu eftirliti með aðstæðum vistmanna og þá einkum:
- Aðbúnaði á staðnum, t.d. húsakosti, fæði og hreinlæti.
- Samskiptum við starfsfólk en einnig aðra utan dvalarstaðar, t.d. lögmenn og heilbrigðisstarfsmenn.
- Verklagi sem tengist hvers konar öryggisráðstöfunum eða þvingunum en einnig skráningu og meðferð gagna um slík atriði.
- Aðgengi að heilbrigðisþjónustu.
Þetta verður sjötta eftirlitsheimsóknin á grundvelli OPCAT-eftirlitsins og önnur í fangageymslur lögreglu. Sú fyrri var í fangageymslur lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu 15.-17. apríl sl.
Nokkuð er um liðið frá síðustu heimsókn á grundvelli OPCAT-eftirlitsins en það helgast af þeim takmörkunum sem heimsfaraldur COVID-19 hefur haft í för með sér.