26. mars 2021

Sértæk búsetuúrræði fullorðinna rædd á norrænum OPCAT-fundi

Fjallað var um varanleg búsetuúrræði fullorðinna með vitsmunalega skerðingu eða heilabilun á rafrænum fundi OPCAT-starfsfólks umboðsmanna þjóðþinga Norðurlandanna í liðinni viku.

Á fundinum var lýst fyrirkomulagi þessara úrræða í hverju landi fyrir sig og í hverju möguleg hætta á vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð kynni að felast. Starfsfólk sem hefur skoðað slíka staði deildi reynslu sinni og svaraði spurningum.

OPCAT-eftirlit umboðsmanns Alþingis beinist að stöðum þar sem einstaklingar eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu. Tilgangur þess er að hindra að pyndingar eða önnur grimmileg, ómannleg eða vanvirðandi meðferð eða refsing viðgangist á þessum stöðum.

Þetta er í áttunda sinn sem starfsfólk umboðsmanns Alþingis sækir þennan samnorræna fund og voru þátttakendur að þessu sinni 27 frá öllum Norðurlöndunum fimm.

Að jafnaði er fundað tvisvar á ári. Í ljósi aðstæðna hefur það verið gert rafrænt undanfarin misseri. Það hefur bæði leitt til þess að styttra er á milli funda og fleiri hafa getað sótt þá. Markmiðið er að læra af reynslu annarra af eftirlitinu og fjalla um einstök álitamál sem efst eru á baugi hverju sinni. Næsti fundur er fyrirhugaður í október.

   

   

Tengd frétt

Mannréttindi frelsissviptra - Hvar liggja mörkin?