29. mars 2021

Réttur barna til að breyta kenninafni sínu

Börn eiga rétt á að breyta kenninafni sínu, þegar sérstaklega stendur á og telja má að það sé barninu til verulegs hagræðis, þótt foreldri sem ekki fer með forsjá sé andvígt því

Þegar barn hefur náð 12 ára aldri er breytingin háð samþykki þess sjálfs. Sama gegnir um eiginnafn og millinafn barns undir 18 ára aldri. Þannig er viðhorfi barna sem náð hafa tilteknum aldri veitt meira vægi en ella við þessa ákvarðanatöku. Hagsmunir barns geta vegið þyngra en hagsmunir foreldris sem er andvígt breytingunni.

Settur umboðsmaður vekur athygli á þessu vegna kvörtunar föður yfir úrskurði dómsmálaráðuneytis sem lagði fyrir Þjóðskrá Íslands að breyta kenninafni dóttur mannsins þannig að hún yrði kennd til móður eins og mæðgurnar óskuðu eftir. Settur umboðsmaður taldi ekki ástæðu til að gera athugasemdir við úrskurð  ráðuneytisins þar sem sjónarmið um tengsl stúlkunnar og föður hennar væri málefnalegt. Í því sambandi vísaði hann til afstöðu umboðsmanns barna sem hafi bent á að kenninöfn barna skipti máli fyrir sjálfsmynd þeirra og geti jafnvel beinlínis valdið vanlíðan. Það geti til dæmis átt við í þeim tilvikum sem umrætt foreldri hafi haft lítil, engin eða neikvæð samskipti við barnið og það vilji mun fremur kenna sig við það foreldri sem hafi verið til staðar fyrir það. 

  

  

Lokabréf setts umboðsmanns í máli nr. 10839/2020