19. apríl 2021

Endurkrafa atvinnuleysisbóta þegar Vinnumálastofnun bregst leiðbeiningarskyldu

Úrskurðarnefnd velferðarmála rannsakaði ekki með fullnægjandi hætti hvort Vinnumálastofnun hefði gætt að leiðbeiningarskyldu sinni áður en hún staðfesti ákvörðun um að krefja einstakling um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta.

Vinnumálastofnun gerði sjálfstætt starfandi einstaklingi að endurgreiða rúmlega 1,4 milljónir króna af atvinnnuleysisbótum einungis af þeirri ástæðu að honum hafði láðst að skrá sig af launagreiðendaskrá. Einstaklingurinn kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem hann hefði engar leiðbeiningar fengið um að nauðsynlegt væri að láta afskrá sig af launagreiðendaskrá og skila inn staðfestingu þess efnis til Vinnumálastofnunar. Þegar úrskurðarnefndin staðfesti niðurstöðu Vinnumálastofnunar leitaði viðkomandi til umboðsmanns Alþingis.

Settur umboðsmaður benti á að Vinnumálastofnun bæri ábyrgð á að upplýsa hvort skilyrði til að greiða atvinnuleysisbætur væru uppfyllt. Ljóst var að umsækjandinn í þessu máli hefði oft tilkynnt Vinnumálastofnun um verktakavinnu sína og verið tekinn af atvinnuleysisskrá dagana sem sú vinna stóð yfir. Taldi umboðsmaður að þegar Vinnumálastofnun fékk þessar upplýsingar frá umsækjandanum hefði stofnuninni borið að leiðbeina honum um að hann þyrfti einnig að láta skrá sig af launagreiðendaskrá og leggja fram staðfestingu um það, enda væri hvort tveggja skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta. Gerði umboðsmaður athugasemdir við að Vinnumálastofnun hefði hvorki rannsakað þetta atriði né leiðbeint umsækjandanum um það.

Settur umboðsmaður gerði einnig athugasemdir við að úrskurðarnefnd velferðarmála skyldi ekki hafa rannsakað með viðunandi hætti hvort Vinnumálastofnun hefði gætt leiðbeiningarskyldu í málinu. Beindi umboðsmaður því til nefndarinnar að taka málið upp að nýju og leysa þá úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu. Jafnframt var því beint til Vinnumálastofnunar að skoða hvernig rétta ætti hlut umsækjandans ef málið kæmi aftur til meðferðar þar.

   

  

Álit setts umboðsmanns í máli nr. 10431/2020