28. apríl 2021

Óvissa um að frumkvæðiseftirlit með auglýsingum á lausum störfum hjá ríkinu skili árangri

Allt frá árinu 1954 hefur það verið meginregla í lögum að auglýsa skuli opinberlega laus embætti og störf hjá ríkinu. Reglur um þessi mál hafa verið tiltölulega skýrar en ítrekað hafa komið fram athugasemdir um að þeim hafi ekki verið fylgt. Nú hefur settur umboðsmaður komist að þeirri niðurstöðu að vegna stöðugt nýrra tegunda frávika við framkvæmd þessara mála hjá stjórnvöldum og nýlegra lagabreytinga um víðtækari undanþágur frá auglýsingaskyldu séu ekki forsendur til að halda áfram frumkvæðisathugun umboðsmanns á þessum málum. Það sé einfaldlega of mikil óvissa um hvaða árangri slík athugun muni skila um bætta starfshætti í stjórnsýslunni að þessu leyti.

Þegar lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins voru sett árið 1954 var þar að finna nýmæli um að opinberar stöður skyldu almennt auglýstar lausar til umsóknar. Í athugasemd við tillöguna sagði í frumvarpi til laganna: „Er það réttlætismál og jafnræðis, að öllum þeim sem hugur leikur á tilteknu opinberu starfi, sé veittur þess kostur að sækja um það. Ríkinu ætti þá einnig að vera meiri trygging fyrir því, að hæfir menn veljist í þjónustu þess.“

Þegar lögin voru endurskoðuð og ný lög sett nr. 70/1996 voru áfram ákvæði um auglýsingaskylduna í 7. gr. laganna en greint á milli reglna um auglýsingar á lausum embættum og öðrum störfum. Þannig  gildir sú meginregla samkvæmt lögunum að auglýsa skuli embætti nema tilteknar undantekningar eigi við. Þær undantekningar voru í upphafi takmarkaðar við aðstæður eins og framlengingu á tímabundnum skipunum, setningu vegna forfalla og flutning á milli embætta.

Önnur störf skal auglýsa opinberlega samkvæmt reglum sem fjármála- og efnahagsráðherra setur. Í þessum reglum er það meginreglan að auglýsa skuli laus störf en þau tilvik þegar ekki er skylt að auglýsa störf eru afmörkuð sérstaklega. Þessar undanþágur frá auglýsingaskyldu eiga við um störf sem aðeins eiga að standa í tvo mánuði eða skemur, störf sem eru tímabundin vegna sérstakra aðstæðna, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingar- og foreldraorlofs, námsleyfis, leyfis til starfa á vegum alþjóðastofnana og því um líkt, enda sé ráðningunni ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt. Þá eru jafnframt undanþágur um störf sem auglýst hafa verið innan síðustu sex mánaða ef þess hefur verið getið í auglýsingu að umsóknin geti gilt í sex mánuði frá birtingu hennar. Loks eru undanþágur um störf vegna tímabundinna vinnumarkaðsúrræða á vegum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og hlutastörf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu sem teljast til vinnumarkaðsúrræða.

Þegar lögin voru endurskoðuð árið 1996 var í athugasemdum tekið fram að mikill misbrestur væri á því að farið væri eftir gildandi lagafyrirmælum um auglýsingaskylduna og um það vísað í álit umboðsmanns Alþingis frá 2. febrúar 1996 í máli nr. 1320/1994. Þrátt fyrir að skerpt væri á ákvæðum um auglýsingaskylduna í nýju lögunum og með skýrum fyrirmælum í þeim reglum sem ráðherra setti í kjölfar samþykktar þeirra bárust umboðsmanni áfram ítrekað kvartanir og ábendingar um að auglýsingaskyldunni væri ekki fylgt. Á árinu 2006 ákvað umboðsmaður að framkvæma hliðstæða athugun að eigin frumkvæði og gerð hafði verið vegna máls nr. 1320/1994 um auglýsingar á lausum stöðum á vegum Stjórnarráðsins og þeim störfum sem ráðherrar veita. Við þá gagnaöflun komu í ljós ýmis frávik frá því að reglunum væri fylgt og til undirbúnings því að ljúka athuguninni voru þessi tilvik greind og flokkuð.

Nokkur bið varð á því að umboðsmanni gæfist tími til að ljúka frágangi samantektar og áliti í tilefni af  athuguninni. Á sama tíma bættist enn við fjöldi kvartana og ábendinga um að reglum um auglýsingaskyldu vegna lausra starfa hjá ríkinu hefði ekki verið fylgt. Það vakti líka athygli umboðsmanns að enn bættist í flóru frávika frá reglunum og það var gjarnan svo að þegar innt var eftir því, t.d. í formi fyrirspurnar, hvort tiltekin leið sem farin hafði verið væri í samræmi við reglurnar um auglýsingaskylduna var þess ekki langt að bíða að sjá mætti dæmi um að önnur leið væri farin til að komast hjá því að fylgja reglunum.

Til skýringar þegar auglýsingaskyldunni hafði yfir höfuð ekki verið sinnt var t.d. nefnt að ekki hefði verið auglýst þar sem áhugi hefði verið á að ráða tiltekinn einstakling í ótímabundið starf eða að það væri talið skilvirkara að sleppa því að auglýsa. Athugunin beindist eins og áður sagði að Stjórnarráðinu en þar komu fram ýmis dæmi um að einstaklingar væru ráðnir til ráðgjafar eða einstakra verkefna án auglýsingar og umfram þann ráðningartíma sem eru skilyrði þess að sleppa megi auglýsingu. Þá var heldur ekki um að ræða að ráðningarnar rúmuðust innan heimilda ráðherra til að ráða sérstaka aðstoðarmenn án auglýsingar. Einnig komu fram dæmi um endurteknar tímabundnar setningar og ráðningar á sama einstaklingi án auglýsingar þrátt fyrir að komið væri fram yfir tilskilin tímamörk undanþáguheimilda. Þessu tengt voru dæmi um ráðningar án auglýsingar sem sagðar voru vegna forfalla og afleysinga sem ekki varð séð að féllu undir skilyrði til þess að ráða tímabundið án auglýsingar. Þegar leitað var skýringa á því hvernig tilteknir starfsmenn hefðu fengið ótímabundna ráðningu án þess að auglýsing fyndist um viðkomandi starf kom í ljós að þeir höfðu gjarnan upphaflega verið ráðnir tímabundið með eða án auglýsingar. Og þótt heimildin vegna starfs sem auglýst hefur verið innan sex mánaða taki samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til hins auglýsta starfs voru dæmi um að umsækjendur um það hefðu í skjóli þessarar undantekningar verið ráðnir í annað starf án auglýsingar. Þetta eru aðeins samandregin dæmi en frávikin voru af ýmsum toga.

Þegar gagnaöflunin fór upphaflega fram hjá Stjórnarráðinu komu fram ýmis dæmi um tilflutning starfsmanna milli starfa innan Stjórnarráðsins og dæmi voru um að starfsmenn hefðu komið þar til starfa án auglýsingar úr störfum hjá ríkinu utan Stjórnarráðsins. Um flutning embættismanna og undanþágu frá auglýsingu embættis voru þegar ákvæði í lögum nr. 70/1996. Um flutning annarra starfsmanna Stjórnarráðsins sem ráðnir eru ótímabundið milli ráðuneyta án auglýsingar á hinu nýja starfi voru hins vegar engin sérstök ákvæði í lögum þar til slík regla var sett í 11. gr. þágildandi laga um Stjórnarráð Íslands með lögum nr. 109/2007 og er reglan nú í 2. mgr. 21. gr. laga um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011. Í þeim lögum komu líka inn heimildir til flutnings starfsmanna vegna flutnings verkefna milli ráðuneyta. Almenn heimild til að flytja ríkisstarfsmenn milli stjórnvalda án auglýsingar á nýju starfi er nú komin inn í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 með breytingu sem gerð var með lögum nr. 82/2015.

Þær athuganir sem umboðsmaður hefur gert á framkvæmd stofnana ríkisins, einkum Stjórnarráðsins, á því hvernig lögum og reglum um auglýsingar á lausum stöfum er fylgt veita vísbendingar um að nokkuð algengt sé að stjórnendur velji að fara aðrar leiðir við að ráða í störf heldur en að auglýsa þau. Þá sýna þau mál sem komið hafa til athugunar hjá umboðsmanni að undanförnu að stjórnvöld hafa í vaxandi mæli notað þær heimildir sem hafa komið til á síðari árum til að flytja embættismenn og starfsmenn milli stofnana og starfa án þess að auglýsa störfin.

Ákvæði laga og reglur um í hvaða tilvikum þarf að auglýsa laus embætti og störf hjá ríkinu eru tiltölulega skýrar og vilji löggjafans að baki þessum reglum hefur legið fyrir frá árinu 1954. Umboðsmaður Alþingis hefur því ekki talið tilefni til þess að beina tilmælum til Alþingis eða ráðherra um að þessar reglur verði gerðar skýrari. Það sem hefur hins vegar vakið athygli umboðsmanns við eftirlit með þessum málum er að þrátt fyrir skýrar reglur og vilja löggjafans um að tryggja jafnræði og gagnsæi við meðferð þessara mála hafa ítrekaðar ábendingar umboðsmanns um að tiltekin framkvæmd sé ekki í samræmi við lög og reglur á þessu sviði í ýmsum tilvikum aðeins leitt til þess að fundin er önnur leið til þess að haga málum á skjön við reglurnar í stað þess að laga framkvæmdina að þeim. Þá gætir þess í vaxandi mæli að nýjar lagaheimildir til flutnings milli embætta og starfa án auglýsingar séu notaðar.

Í ljósi þessa hefur settur umboðsmaður Alþingis ákveðið að ekki sé forsvaranlegt að nýta takmarkaðan mannafla embættisins til að ljúka þeirri frumkvæðisathugun sem stofnað var til um framkvæmd stjórnvalda ríkisins á skyldunni til að auglýsa laus störf nema undantekningarheimildir séu til staðar með formlegu áliti og tilmælum. Þau tilmæli gætu líka vart lotið að öðru en að stjórnvöld fylgi þeim skýru reglum sem þegar gilda um þessi mál en þar reynir fyrst og fremst á vilja þeirra til að haga málum með þeim hætti. Forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra hefur verið tilkynnt um þessa ákvörðun setts umboðsmanns.