29. apríl 2021

Stjórnvöld veittu ekki viðunandi leiðbeiningar vegna heimsóknarbanns á hjúkrunarheimili

Settur umboðsmaður telur stjórnvöld ekki hafa veitt viðunandi leiðbeiningar í máli einstaklings sem fékk ekki að heimsækja eiginkonu sína á hjúkrunarheimili vegna COVID-19.

Hjúkrunarheimili hafði synjað beiðni einstaklingsins um undanþágu frá heimsóknarbanni sem sett var vegna COVID-19. Einstaklingurinn kvartaði til umboðsmanns yfir þeirri ákvörðun og afgreiðslu bæði landlæknis og heilbrigðisráðuneytisins á málinu.

Þótt erindið til ráðuneytisins hefði öðrum þræði beinst að málsmeðferð landlæknisembættisins taldi settur umboðsmaður það fyrst og fremst hafa lotið að synjun um undanþágu frá heimsóknarbanni. Taldi umboðsmaður að ef ráðuneytinu var ekki ljóst hvort ætlunin hefði verið að bera ákvörðunina um heimsóknarbannið undir það á grundvelli stjórnsýslukæru hefði það átt að afla nánari upplýsinga um það. Þá hefði ekki verið leiðbeint um kæruheimild til ráðuneytisins.

Settur umboðsmaður minnti á að erindi stjórnvalda til borgaranna skuli vera nægjanlega skýr til að þeir geti gert sér grein fyrir réttarstöðu sinni, ekki síst þegar teknar séu íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir. Æðra stjórnvald verði að kanna hvort erindi sem því berst feli í sér stjórnsýslukæru og fara með erindið í samræmi við niðurstöðu sína um það

Þar sem ráðuneytið hafði ekki fjallað efnislega um þá ákvörðun hjúkrunarheimilisins að hafna beiðni um undanþágu frá heimsóknarbanni voru ekki skilyrði fyrir settan umboðsmann til að fjalla frekar um málið að því leyti.

   

  

Bréf umboðsmanns í máli nr. 10917/2021