10. maí 2021

Hafrannsóknastofnun birti rannsóknargögn án leyfis

Notkun Hafrannsóknastofnunar á rannsóknargögnum einstaklings og birting upplýsinga úr þeim, án þess að geta hvaðan gögnin voru komin eða fá leyfi hans, samrýmdist ekki lögum og vönduðum stjórnsýsluháttum. Þá brást stofnunin ekki fullnægjandi við ósk um afsökunarbeiðni og lagfæringu fréttar á vef hennar.

Þetta kemur fram í áliti setts umboðsmanns vegna kvörtunar yfir starfsháttum Hafrannsóknastofnunar.  Benti hann á að stofnunin hefði ekki frjálsar hendur um hvernig farið væri með gögn frá einkaaðilum og að hafa yrði þjónustuhlutverk hennar í huga. Eftir að samskipti umboðsmanns og Hafrannsóknastofnunar hófust vegna málsins viðurkenndi stofnunin að mistök hefðu verið gerð og baðst afsökunar á birtingu fréttar á vef hennar. Settur umboðsmaður benti á að þrátt fyrir það, hefði fréttin ekki verið leiðrétt líkt og viðkomandi hefði farið fram á. Var það niðurstaða hans að ekki hefði verið brugðist við erindum viðkomandi í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

Mæltist settur umboðsmaður til þess, ef eftir því yrði leitað, að Hafrannsóknastofnun tæki erindið til meðferðar að nýju hvað snerti leiðréttingu fréttarinnar og afgreiddi þá í samræmi við sjónarmiðin í álitinu. Þar sem stofnunin hefði viðurkennt mistök með birtingu fréttarinnar og beðist afsökunar á þeim voru tilmæli setts umboðsmanns í því efni afmörkuð við að framvegis yrði gætt að þeim sjónarmiðum sem fram komu í álitinu. Þá gerði settur umboðsmaður athugsemdir við svör Hafrannsóknastofnunar til umboðsmanns og kom þeirri ábendingu á framfæri að þau yrðu framvegis betur úr garði gerð.

   

   

Álit setts umboðsmanns í máli nr. 10358/2020