27. maí 2021

Synjun mannanafnanefndar á nafninu Kona ekki byggð á viðhlítandi lagagrundvelli

Mannanafnanefnd byggði ekki á viðhlítandi lagagrundvelli, að áliti umboðsmanns, þegar hún hafnaði beiðni um eiginnafnið Kona.

Niðurstaða nefndarinnar byggðist einkum á því að nafnið bryti í bága við íslenskt málkerfi þar sem ekki væri hefð fyrir því að nota samnöfn sem merkja fólk af ákveðnu kyni/aldri sem mannanöfn. Umboðsmaður benti á að að rétturinn til nafns sé varinn af stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu og takmörkun á þeim réttindum þurfi að reisa á skýrri heimild í settum lögum. Þau sjónarmið sem mannanafnanefnd byggði á yrðu ekki leidd með nægilega skýrum hætti af því ákvæði mannanafnalaga sem nefndin vísaði til, samhengi þess við aðrar reglur laganna eða forsögu og lögskýringargögn. Nefndin hafi því farið út fyrir það svigrúm sem hún hefði samkvæmt lögum.

Umboðsmaður tók fram í álitinu að með þessari niðurstöðu væri ekki tekin nein afstaða til þess hvort sum þeirra sjónarmiða sem nefndin hefði vísað til gætu komið til skoðunar á öðrum lagalegum grundvelli en stuðst hefði verið við í úrskurði hennar. Mæltist hann til að mannanafnanefnd tæki málið til meðferðar á ný ef eftir því yrði leitað og leysti þá úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu.

 

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 10110/2019