24. júní 2021

Heimsókn fulltrúa Geðhjálpar

Formaður og framkvæmdastjóri Geðhjálpar fóru yfir ýmis hagsmunamál umbjóðenda sinna, einkum hvað snertir réttarstöðu þeirra sem vistaðir eru á lokuðum deildum geðheilbrigðisstofnana, á fundi með umboðsmanni í dag.

Í skýrslu umboðsmanns í kjölfar heimsókna hans á þrjár deildir á Kleppi árið 2018 var bent á að verulega skorti á að fullnægjandi heimildir og umbúnaður væri í lögum vegna þeirra inngripa, þvingana og valdbeitingar sem spítalinn teldi nauðsynlegt að viðhafa gagnvart sjúklingum. Í þeim efnum var m.a. bent á að mörkin milli meðferðarsjónarmiða og öryggissjónarmiða gætu verið óljós þegar teknar væru ákvarðanir um meðferð og líf sjúklinga sem þar vistuðust.

Til að fylgja eftir ábendingum í skýrslunni, og í tilefni af fréttum að undanförnu um starfsemina á Kleppi, fór umboðsmaður í heimsókn þangað síðastliðinn föstudag á grundvelli OPCAT-eftirlits með aðbúnaði frelsissviptra.

Umboðsmaður sagði eftir fundinn að við umfjöllun um geðheilbrigðismál væri mikilvægt að leita eftir sjónarmiðum sem víðast, þ. á m. frá notendum og aðstandendum, og í því sambandi hefði heimsókn Geðhjálpar verið gagnleg.

   

Gedhjalp UA.JPG

  

Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar, Skúli Magnússon umboðsmaður og Héðinn Unnsteinsson formaður Geðhjálpar.

 

 

Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit á geðdeildum Landspítala á Kleppi 2018