28. júní 2021

Ráðuneyti sjávarútvegsmála bar að taka afstöðu til hvort fresta ætti úthlutun byggðakvóta

Ráðuneyti sjávarútvegsmála fór ekki að lögum við afgreiðslu stjórnsýslukæru vegna úthlutunar byggðakvóta. Hvorki var tekin afstaða til þess hvort fresta ætti úthlutun meðan kæran væri til umfjöllunar eða fjallað um kröfur félagsins né úrskurðað um hana innan tveggja mánaða eins og lög mæla fyrir um.

Útgerðarfélag kvartaði til umboðsmanns yfir málsmeðferð bæði Fiskistofu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins eftir að umsókn þess um byggðakvóta var synjað. Bar félagið þeim mistökum við að hafa merkt við rangt byggðarlag þegar eyðublað Fiskistofu var fyllt út og þar með sótt um byggðakvóta í öðru byggðarlagi en skipið væri skráð í.

Umboðsmaður benti á að ráðherra sjávarútvegsmála hafi lögum samkvæmt borið að taka afstöðu til þess hvort ástæða væri til að fresta úthlutun í því byggðarlagi þar sem skipið var skráð og í kjölfarið hvort tilefni væri til að breyta ákvörðunum Fiskistofu þannig að útgerðarfélagið fengi byggðakvóta. Það hefði ekki verið gert heldur eingöngu staðfest að skipið ætti ekki rétt á byggðakvóta í því byggðarlagi sem það hafði merkt við í umsókn. Þá hefði ráðuneytið ekki afgreitt málið fyrr en sjö mánuðum eftir að kæran barst. Auk þess hefði Fiskistofu borið kanna hvort félagið hefði í raun ætlað að sækja um að skip þess fengi byggðakvóta í öðru byggðarlagi en skipið væri skráð í og eftir atvikum leiðbeina um þetta atriði og gefa félaginu kost á að leiðrétta hugsanleg mistök. Stofnunin hefði því ekki gætt að rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu sinni á fyrri stigum málsins.

Í ljósi þess að fiskveiðiárið sem úthlutunin tók til er liðið beindi umboðsmaður því til ráðuneytisins að meta hvort unnt væri að rétta hlut félagsins með öðrum hætti en að fjalla efnislega um málið á ný. Þá var athygli Alþingis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vakin á hugsanlegu misræmi milli lögskýringargagna og tiltekinnar framkvæmdar ráðuneytisins við úthlutun byggðakvóta.

      

Álit umboðsmanns í máli nr. 10898/2021