10. ágúst 2021

Birta ber nöfn starfsmanna sem standa að ákvörðunum stjórnvalda

Afstaða Tryggingastofnunar að birta almennt ekki nöfn starfsmanna sem standa að baki ákvörðunum stofnunarinnar er ekki í samræmi við kröfur sem gera verður til forms og framsetningar stjórnvaldsákvarðana.

Kvartað var yfir að nöfn þeirra starfsmanna sem stóðu að baki ákvörðun og rökstuðningi vegna örorkumats hefðu ekki komið þar fram. Í skýringum Tryggingastofnunar kom meðal annars fram að ákveðið hefði verið að hafa þennan hátt á til að vernda starfsfólk sem ítrekað hefði verið hótað og áreitt í kjölfar ákvarðana.

Umboðsmaður benti á að það hefði grundvallarþýðingu út frá réttaröryggissjónarmiðum að tilgreina nöfn þeirra starfsmanna sem standi að ákvörðun. Þannig gæfist málsaðila til dæmis færi á að ganga úr skugga um að viðkomandi starfsmenn hefðu verið bærir til að taka slíka ákvörðun auk þess sem það hefði grundvallarþýðingu til að hann gæti metið hvort aðstæður væru með þeim hætti að efast mætti um hæfi starfsmanns. Ákvæði persónuverndarlaga stæðu því ekki í vegi að birta nöfn starfsmanna, eins og stofnunin hefði byggt á. Ef stofnunin teldi aftur á móti ástæðu til að gæta trúnaðar um slíkar upplýsingar bæri að leggja mat á hagsmuni aðila máls gagnvart þeim almanna- og einkahagsmunum sem væru undir í málinu í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

Mæltist umboðsmaður til að Tryggingastofnun tæki málið til meðferðar að nýju ef eftir því yrði leitað og leysti þá úr því samræmi við sjónarmið í álitinu. Jafnframt að gera viðeigandi ráðstafanir til úrbóta á formi og framsetningu stjórnvaldsákvarðana stofnunarinnar.

   

Álit umboðsmanns í máli nr. 10652/2020