08. september 2021

Kostnaður við rekstur mála í stjórnsýslunni og ábending um að gæta að skýrleika laga

Sú ákvörðun að gera Íslandspósti ohf. að greiða kostnað ríkissjóðs vegna reksturs sjö mála fyrirtækisins hjá úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála, alls tæpar fjórar milljónir króna, átti sér ekki fullnægjandi lagastoð. Þá telur umboðsmaður ekki lagastoð fyrir því að krefjast greiðslu málskotsgjalds áður en kæra kemur til meðferðar hjá nefndinni.  

Í kvörtun Íslandspósts var meðal annars byggt á því að ekki hefðu verið uppfyllt skilyrði til að láta félagið greiða fyrir kostnað af rekstri málanna hjá nefndinni. Auk þess hefði fjárhæðin verið fram úr hófi með tilliti til eðlis og umfangs málanna en í þeim var deilt um hvort og hvar póstkassar skyldu vera í nokkrum fjöleignarhúsum.

Ásamt því að gera ofangreindar athugasemdir við afgreiðslu málsins benti umboðsmaður á ýmsa annmarka við meðferð þess. Þá taldi hann rétt að benda bæði Alþingi og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu á orðalag laga og reglugerðar sem á reyndi í málinu til að hugað yrði að því hvort gera þurfi breytingar þannig að hugtakanotkun endurspegli betur inntak gjaldtökunnar. Jafnframt að ráðuneytið hugaði betur að eftirliti með kostnaði vegna nefndarinnar og hvort ástæða væri til að setja sérstök viðmið um kostnað vegna málskota og málmeðferðar nefndarinnar í reglugerð.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 10052/2019