13. september 2021

Erindi um persónuvernd og upplýsingagjöf á lagadeginum

Umboðsmaður og starfsfólk hans tekur alla jafna þátt í lagadegi Lögfræðingafélags Íslands, Lögmannafélags Íslands og Dómarafélags Íslands, ýmist með því að flytja erindi og/eða sækja málstofur. Að þessu sinni fjallaði Særún María Gunnarsdóttir skrifstofustjóri um afmörkuð atriði í tengslum við birtingu upplýsinga á opnum vef stjórnvalds.

Lagadagur.JPG

Í erindinu er byggt á því að þegar stjórnvald leggur mat á hvaða heimildir það hefur til birtingar og hvaða takmarkanir eru á þeim heimildum sé útgangspunkturinn almennar reglur stjórnsýsluréttarins, sem m.a. koma fram í stjórnsýslulögum og upplýsingalögum, og þau sérlög sem gilda um viðkomandi stjórnsýslu en að ákvæði persónuverndarlöggjafarinnar komi þeim síðan til fyllingar.

Erindið var liður í málstofu um persónuvernd og upplýsingagjöf þar sem því var velt upp hvaða mörk nýjar persónuverndarreglur annars vegar og upplýsingalöggjöfin hins vegar setja innan stjórnsýslunnar. Einnig hvort persónuvernd dragi úr gegnsæi og hvort persónuverndarlögum sé misbeitt.