07. október 2021

Afstaða til fundar við umboðsmann

Fulltrúar Afstöðu ræddu um fangelsismál og helstu hagsmunamál fanga á fundi með umboðsmanni og starfsfólki hans í vikunni.

Þar bar hæst ýmis réttindamál fanga og ekki hvað síst reglur um heimsóknir, einkum barna þeirra, og reynslulausn. Einnig voru rædd þau áhrif sem mál til rannsóknar hjá lögreglu geta haft á ýmis ívilnandi úrræði og vikið var að ákveðnum atriðum í tengslum við stöðu gæsluvarðhaldsfanga. Þá fór formaður Afstöðu yfir starfsemi félagsins og kynnti það helsta sem í henni felst.

Á fundinum var einnig rætt um OPCAT-eftirlit umboðsmanns í fangelsum en farið hefur verið í þrjár heimsóknir til að kanna aðbúnað í þeim. Eftirlitið hefur tekið til opna fangelsisins að Sogni í Ölfusi, gæsluvarðhaldsfanga á Hólmsheiði og öryggisdeildar á Litla-Hrauni.

  

SM og GI vefur.jpg

Skúli Magnússon umboðsmaður Alþingis og Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu 

   

Afstaða, sem er félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, var stofnuð á Litla-Hrauni árið 2005. Markmið félagsins er ekki hvað síst að búa föngum skilyrði til farsællar endurkomu út í samfélagið og huga að aðstandendum þeirra.