27. október 2021

Lagastoð fyrir vistun á landamærum og aðbúnaður þegar grunur er um innvortis fíkniefni

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum telur styrka lagastoð fyrir því að vista útlendinga, sem eru til skoðunar á landamærum í Leifsstöð, í fangageymslum í Reykjanesbæ vegna aðstöðuleysis á flugvellinum. Þó telur hann að heimildir til þess mættu vera skýrari. Dómsmálaráðuneytið telur vistunina fela í sér frelsissviptingu og vafa leika á að lagaákvæðin séu nægilega skýr grundvöllur hennar.

Þetta kemur fram í skýrslum umboðsmanns vegna OPCAT-eftirlits með annars vegar fangageymslum lögreglustjórans á Suðurnesjum og hins vegar varðstofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Vistun vegna skoðunar á landamærum

Fyrir kemur að einstaklingum er synjað um inngöngu í landið til bráðabirgða vegna skoðunar á landamærum. Eitt af því sem vakti athygli umboðsmanns í heimsóknunum tveimur var vistun þeirra í fangageymslu. Var lögreglustjórinn spurður sérstaklega út í þetta og þar á meðal hvort framkvæmdin byggði á einhverjum lagaheimildum til viðbótar við ákvæði laga um útlendinga. Jafnframt var dómsmálaráðherra sent afrit af bréfinu til upplýsingar.

Í svari lögreglustjórans kom fram að byggt væri á lögum um útlendinga og litið svo á að fyrir þessu væri styrk lagastoð. Í þeim tilvikum sem útlendingur væri vistaður í fangageymslu vegna aðstöðuleysis á flugvelli, sem lengi hefði verið bent á að væri ekki viðunandi, færi þó betur á að lagaheimildir væru skýrari.

Dómsmálaráðuneytið taldi engan vafa leika á að vistun fólks við þessar aðstæður fæli í sér frelsissviptingu og að vafamál væri að umrædd lagaákvæði teldust nægilega skýr grundvöllur hennar. Var umboðsmaður upplýstur um að framkvæmdin yrði skoðuð nánar og að jafnframt yrði hafin vinna við að meta mögulega kosti til að byggja upp aðstöðu til að vista fólk á landamærunum. Sem fyrst væri þó stefnt að því að koma upp bráðabirgðaaðstöðu.

Í skýrslunni minnir umboðsmaður á að þegar fólk sé svipt frelsi skuli ávallt leitast við að úrræði séu sem minnst íþyngjandi. Fangelsi hafi ekki verið talin viðeigandi staður til að vista fólk við þessar aðstæður og áréttar hann að viðkomandi hafi ekki verið handtekinn.

Af öðrum athugasemdum varðandi Leifsstöð má nefna ábendingar og tilmæli vegna aðstöðu í biðklefum á gegnumferðarsvæði Leifsstöðvar en þar getur fólk verið vistað sem tekið er til skoðunar á landamærum.

Fangageymslur

Í heimsókn umboðsmanns í fangageymslur hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum staldraði hann meðal annars við þá aðstöðu sem fólki er búin þegar það er vistað vegna gruns um að vera með fíkniefni innvortis. Meðan á vistun þess stendur er það undir stöðugu eftirliti lögreglumanna við allar athafnir, þar á meðal við salernisferðir, en slíkri vistun hefur þó ekki verið búin sérstök umgjörð í lögum eða reglugerðum. Þá hafa heilbrigðisstarfsmenn ekki sérstaka aðkomu að eftirliti með viðkomandi. Dæmi er þess að vistun hafi varað í þrjár vikur í klefa sem er sérútbúinn í þessum tilgangi en umboðsmaður benti bæði dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra á að almennt sé aðbúnaðurinn í fangageymslunum ekki fullnægjandi til að vista neinn þar lengur en í sólarhring.

Í skýrslunni eru einnig tilmæli og ábendingar um upplýsingagjöf og varðandi húsnæði lögreglustöðvarinnar að Hringbraut, auk annars.

Umboðsmaður fylgist áfram með þróun þessara mála og óskar eftir því að þau stjórnvöld sem hlut eiga að máli geri grein fyrir viðbrögðum sínum fyrir 1. mars 2022.

      

Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit með vistun vegna skoðunar á landamærum hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum

Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit í fangageymslum hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum

OPCAT-skýrslur umboðsmanns