08. nóvember 2021

OPCAT-eftirlit í faraldrinum og árangur þess ræddur á samnorrænum fundi

Fjallað var um áhrif COVID á OPCAT-eftirlit og árangur af því á rafrænum fundi þar sem starfsfólk sem sinnir slíku eftirliti á vegum norrænu umboðsmannanna bar saman bækur sínar. Tuttugu og sjö frá löndunum fimm sátu fundinn.

Á fundinum var rætt hvernig fyrirkomulag eftirlitsins hefði breyst vegna faraldursins og þróun vegna breyttra aðstæðna. Fjallað var um eftirfylgni vegna tilmæla og ábendinga umboðsmanna í kjölfar heimsókna, leiðir til að miðla upplýsingum, áhrif eftirlitsins á löggjöf, verklag, fjárveitingar og fleira. Þá lýstu starfsmenn systurstofnana umboðsmanns yfir ánægju með þann árangur sem náðst hefði hér á landi í þessum efnum á þeim stutta tíma sem eftirlitið hefur verið starfrækt. Að lokum hlýddu þátttakendur á erindi dr. Juliu Korkman frá Finnlandi um árangursríka viðtalstækni.

Að jafnaði fundar þessi hópur tvisvar á ári og þá rafrænt undanfarin misseri. Ef aðstæður leyfa er stefnt að því að halda næsta fund hér á landi fyrri part næsta árs.