Hvorki Tryggingastofnun né úrskurðarnefnd velferðarmála sinntu hlutverkum sínum sem skyldi þegar beiðni föður um breytingu á umönnunarmati barna hans var synjað. Tryggingastofnun gætti ekki að leiðbeiningarskyldu sinni og rannsókn nefndarinnar á málinu var ekki fullnægjandi.
Rík leiðbeiningarskylda hvílir á Tryggingastofnun lögum samkvæmt og ber stofnuninni að skoða réttindi og stöðu viðkomandi heildstætt. Á þetta er minnt í áliti umboðsmanns vegna kvörtunar föður sem óskaði eftir endurmati Tryggingastofnunar á umönnunarþörf barna hans. Benti faðirinn meðal annars á að löng bið væri eftir greiningu hjá opinberri stofnun og bað um að tekið yrði tillit til þess við matið.
Þótt Tryggingastofnun hefði synjað beiðninni upplýsti hún við meðferð málsins hjá umboðsmanni að mögulegt væri að fá hærra umönnunarmat samþykkt tímabundið, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, á meðan barn biði eftir eftir að komast að hjá opinberri greiningar- og þjónustustofnun. Faðirinn fékk hins vegar hvorki leiðbeiningar frá stofnuninni um að hann gæti lagt fram frekari gögn né hvers konar. Meðferð málsins var því ekki í samræmi við lög að áliti umboðsmanns.
Þrátt fyrir athugasemdir föðurins við meðferð málsins leitaðist úrskurðarnefnd velferðarmála ekki við að upplýsa hvernig framkvæmd Tryggingastofnunar væri almennt háttað að þessu leyti og þá hvort honum hefði verið leiðbeint með fullnægjandi hætti. Taldi umboðsmaður nefndina ekki hafa gætt að rannsóknarskyldu sinni og mæltist til að málið yrði tekið til meðferðar á ný, ef eftir því yrði leitað, og þá leyst úr því í samræmi við álitið.
Álit umboðsmanns í málum nr. 10709/2020 og 10720/2020