Að gefnu tilefni áréttar umboðsmaður ýmis sjónarmið vegna beiðna um upplýsingar og gögn í ráðningarmálum. Einkum um samspil stjórnsýslulaga og persónuverndarlaga.
Í upphafi árs fjallaði settur umboðsmaður um helstu álitaefni sem reynt getur á í slíkum málum. Bent var á að upplýsingaréttur aðila máls samkvæmt stjórnsýslulögum er mun ríkari en réttur almennings samkvæmt upplýsingalögum. Einnig að persónuverndarlögin takmarki ekki þann rétt til aðgangs að gögnum sem mælt er fyrir um í stjórnsýslulögum.
Tilefni þessarar umfjöllunar er kvörtun vegna afgreiðslu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á beiðni umsækjanda um aðgang að gögnum og upplýsingum vegna sjö ráðningarmála. Einkum hvaða gögn væru undanþegin upplýsingarétti aðila máls og hvenær og með hvaða hætti heilsugæslunni hefði verið heimilt að takmarka aðgang að þeim vegna einkahagsmuna annarra umsækjenda.
Heilsugæslan vísaði m.a. til persónuverndarlaga og persónuverndarreglugerðar Evrópusambandsins máli sínu til stuðnings. Umboðsmaður benti aftur á móti á að ákvæði stjórnsýslulaga hefðu að geyma sjálfstæðar heimildir fyrir vinnslu persónuupplýsinga og ekki yrði fallist á að ákvæði persónuverndarlaga kæmu sjálfkrafa í veg fyrir að persónuupplýsingar sem beðið væri um í stjórnsýslumáli yrðu afhentar. Vega og meta þyrfti hvert tilvik fyrir sig og af skýringum heilsugæslunnar yrði ekki séð að slíkt hagsmunamat hefði farið fram.
Beindi umboðsmaður því til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að taka málið endurskoðunar ef eftir því yrði leitað og haga þá meðferð þess í samræmi við sjónarmiðin í álitinu og ákvæði stjórnsýslulaga um upplýsingarétt aðila máls.
Álit umboðsmanns í málum nr. 10812/2020, 10834/2020, 10835/2020, 10836/2020 og 10837/2020
Tengd frétt
Óviðundandi afgreiðslur stjórnvalda á beiðnum um upplýsingar og gögn í ráðningarmálum