Af lögum og reglum sem giltu um sérstakar húsaleigubætur hjá sveitarfélögum leiddi að þau höfðu tiltekið svigrúm til að ákveða nánari útfærslu þeirra og setja skilyrði fyrir slíkum greiðslum innan ramma laga og reglna sem um slíka aðstoð giltu.
Á þetta reyndi í málum tveggja örorkulífeyrisþega sem hafði verið synjað afturvirkt um sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg og kært málin til úrskurðarnefndar velferðarmála. Af þeirra hálfu hafði verið byggt á því að ólögmætt væri að mismuna örorkulífeyrisþegum og ellilífeyrisþegum við slíkt mat, þ.e. að gefa fyrrnefnda hópnum tvö stig í matinu en ellilífeyrisþegum þrjú stig undir einum lið af fimm.
Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu stjórnvalda í málinu að þessu leyti. Í þeim efnum benti hann á að staða örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega væri ekki fyllilega sambærileg, hvorki lagalega né með tilliti til raunverulegra aðstæðna. Greiðslur þessara sérstöku bóta hefðu falið í sér aðstoð sem Reykjavíkurborg hefði verið heimilt að veita en ekki skylt. Þá væri þessi greinarmunur aðeins gerður undir einum lið af fimm í matsviðmiðunum. Þessi útfærsla hefði því í reynd ekki komið í veg fyrir að aðstæður örorkulífeyrisþega hefðu verið metnar heildstætt í hverju og einu tilviki. Í því ljósi og að teknu tilliti til sjálfstjórnar sveitarfélaga yrði að leggja til grundvallar að borgin hefði haft verulegt svigrúm til að ákveða nánari útfærslu bótanna og skilyrði fyrir viðtöku þeirra. Þó taldi hann að rökstuðningur úrskurðarnefndar velferðarmála í málunum hefði ekki fyllilega verið í samræmi við reglur stjórnsýslulaga um rökstuðning sem þó haggaði ekki fyrrnefndri niðurstöðu.
Álit umboðsmanns í málum nr. 10623/2020 og 10624/2020