Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið tók ekki fullnægjandi afstöðu til beiðni sveitarfélags um að veita útgerð undanþágu frá skyldu til veiða á mótframlagi vegna byggðakvóta eða að fresta því til næsta fiskveiðiárs.
Sveitarfélagið Skagafjörður lagði fram beiðnina. Byggðist hún einkum á því að tafir vegna viðgerða á fiskiskipi sem rekja mætti til COVID-19 hefðu haft það í för með sér að ekki hefði tekist að veiða lögbundið mótframlag vegna byggðakvóta. Umboðsmaður benti á að ráðherra væri lögum samkvæmt heimilt, að fengnum rökstuddum tillögum sveitarstjórnar, að víkja frá þessu skilyrði væri það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna aðstæðna. Ráðuneytið hefði ekki fjallað um beiðnina í samræmi við þetta og metið hvort skilyrði væru til að fallast á hana. Með þessari niðurstöðu tæki umboðsmaður þó ekki neina afstöðu til þess hvort ráðuneytinu hefði borið að fallast á tillögu sveitarfélagsins.
Þar sem fiskveiðiárin sem erindið tók til voru liðin var ekki mælst til þess að fjallað yrði um beiðnina á nýjan leik. Umboðsmaður beindi því aftur á móti til ráðuneytisins að meta hvort unnt væri að rétta hlut útgerðarinnar með öðrum hætti. Að lokum vakti hann athygli á að atvik málsins og skýringar ráðuneytisins gæfu til kynna að ákvæði laga um stjórn fiskveiða, um úthlutun byggðakvóta, og stjórnvaldsfyrirmæla væru ekki eins skýr og skyldi.
Álit umboðsmanns í máli nr. 10724/2020