11. janúar 2022

Heilbrigðisráðherra spurður um ólík viðmið um sóttkví eftir bóluefnum

Umboðsmaður hefur óskað eftir upplýsingum frá heilbrigðisráðherra um hvort staðið hafi til að gera greinarmun á framkvæmd sóttkvíar bólusettra eftir því hvaða bóluefni viðkomandi hafi fengið. Þá spyr hann hvaða gögn eða aðrar upplýsingar hafi legið til grundvallar slíku mati.

Greint hefur verið frá því að þau sem hafa verið bólusett með þremur skömmtum af bóluefni, a.m.k. hálfum mánuði fyrir útsetningu smits vegna COVID-19, sæti ekki sömu takmörkunum í sóttkví samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra.

Samkvæmt orðalagi reglugerðar sem sett var 7. janúar virðast þeir sem upphaflega voru bólusettir með Janssen, sem fer fram með einum skammti bóluefnis í stað tveggja, og þegið hafa einn örvunarskammt, þó ekki falla undir rýmkun á reglum um sóttkví. Með grunnreglur íslensks réttar um jafnræði og meðalhóf í huga og þær kröfur sem gera verður á þeim grundvelli til setningar stjórnvaldsfyrirmæla með heimild í sóttvarnalögum, hefur umboðsmaður óskað eftir ofangreindum upplýsingum fyrir 19. janúar nk. Í kjölfarið verður tekin ákvörðun um hvort tilefni sé til að taka málið til nánari athugunar.

  

  

Bréf umboðsmanns til heilbrigðisráðherra