15. mars 2022

Skýringar heilbrigðisráðuneytis á samkomutakmörkunum í reglugerð

Að fengnum skýringum heilbrigðisráðherra telur umboðsmaður ekki tilefni til að halda athugun sinni áfram á ákvæðum í reglugerð um samkomutakmarkanir sem sett var í lok janúar og gilti fram í febrúar.

Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn umboðsmanns er m.a. greint frá undirbúningi í aðdraganda að setningu reglugerðarinnar. Tekið er fram að samráð hafi verið haft við fjölda aðila, m.a. innan heilbrigðiskerfisins sem og stýrihóp viðbragðsaðila um COVID-19. Ráðherra hafi lagt sjálfstætt og heildstætt mat á þá verndarhagsmuni sem fólk njóti á grundvelli stjórnarskrár og talið að brýn nauðsyn krefðist þess að viðhalda fjöldatakmörkunum til verndar lífi og heilsu og tryggja viðbragðshæfni heilbrigðisstofnana.

Í ljósi skýringa ráðuneytisins, þess að reglugerðin er fallin úr gildi og að öllum takmörkunum hefur verið að fullu aflétt taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar. Hann taldi engu að síður rétt að árétta mikilvægi þess að ráðherra vegi og meti hverju sinni þá almannahagsmuni sem til standi að vernda, svo sem líf og heilsu borgaranna, með tilliti til þeirra hagsmuna eða réttinda sem skerðing bitnar á og þá einkum þeirra sem njóta verndar stjórnarskrárinnar. Hafa þurfi í huga að þegar um ræði heimildir í lögum sem miðist við tímabundnar aðstæður, beri stjórnvaldi að leggja reglubundið mat á hvort skilyrðum á hverjum tíma sé fullnægt til að viðhalda áfram þeim skerðingum sem leiði af stjórnvaldsfyrirmælum í samræmi við bestu fáanlegar upplýsingar á hverjum tíma.

  

 

Bréf umboðsmanns til heilbrigðisráðherra 

Bréf heilbrigðisráðuneytis til umboðsmanns

   

Tengd frétt

Heilbrigðisráðherra spurður út í samkomutakmarkanir vegna COVID-19