24. mars 2022

Sýslumanni bar að úrskurða um umgengni

Börn og foreldrar njóta gagnkvæms umgengnisréttar nema það sé andstætt hagsmunum barnsins. Til að tryggja hagsmuni barna þegar foreldrar búa ekki lengur saman þarf meðferð slíkra mála að vera skilvirk þannig að virkri umgengni sé komið á eins fljótt og unnt er.

Dómsmálaráðuneytið hafði staðfest ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að vísa frá beiðni manns um að úrskurðað yrði um umgengni hans við börn hans. Byggðist frávísunin einkum á því að þar sem ágreiningur væri uppi um forsjá og lögheimili barnanna væri sýslumanni ekki heimilt að úrskurða um umgengni án þess að höfðað hefði verið mál um þau atriði. 

Þótt foreldrarnir væru enn skráðir með sama lögheimili höfðu þeir ekki búið saman um nokkra hríð. Benti umboðsmaður á að óumdeilt væri að börnin væru búsett hjá móður og ættu því rétt á umgengni við föður með reglubundnum hætti. Að uppfylltum tilteknum skilyrðum ættu foreldrar, óháð hjúskapar- eða sambúðarstöðu sinni, að geta krafist úrskurðar sýslumanns um umgengni þegar ljóst væri að þeir byggju ekki lengur saman. Úrskurður dómsmála­ráðuneytisins hefði því ekki verið í samræmi við lög.

Mæltist umboðsmaður til þess að málið yrði tekið aftur til meðferðar ef eftir því yrði leitað og þá leyst úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu. Þá var sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu upplýstur um það með það í huga að tekin yrði afstaða til þess hvort tilefni væri til að taka verklag embættisins í umgengnismálum til skoðunar.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 11017/2021