Þótt stjórnvöld hafi töluvert svigrúm við mat á því hvort umsækjendur uppfylli hæfniskröfur sem eru settar fram í auglýsingu, þar á meðal hvort ráðið verði í starfið að endingu, leysir það stjórnvaldið ekki undan því að fylgja reglum stjórnsýsluréttar við meðferð málsins.
Vegagerðin gætti ekki að því að upplýsa um tiltekin atriði í tengslum við hæfni umsækjanda um starf hjá stofnuninni áður en tekin var ákvörðun um að hætta við að ráða í starfið auk þess sem á skorti að leiðbeiningarskylda væri fullnægjandi og gætt væri að andmælarétti viðkomandi.
Ákvörðunin um að hætta við að ráðninguna byggðist á því að enginn umsækjenda hefði uppfyllt allar menntunar- og hæfniskröfur en sá sem kvartaði var sá eini sem var boðaður í viðtal. Vegagerðin greindi frá því að nánari athugun hefði leitt í ljós að hann hefði ekki þá reynslu sem krafist væri og hefði ekki heldur viljað nefna umsagnaraðila sem gæti staðfest reynslu hans af nýlegum verkefnum.
Umboðsmaður benti á að Vegagerðinni hefði borið að upplýsa manninn með skýrari hætti en gert var um mikilvægi þess að tilgreina umsagnaraðila vegna nýrri reynslu og afleiðingar þess ef það yrði ekki gert. Þá hefði mat Vegagerðarinnar, á þeim upplýsingum sem aflað var, verið þess eðlis að vekja hefði átt athygli viðkomandi á að þar væru upplýsingar honum í óhag og veita honum færi á að tjá sig um þær áður en ákvörðun var tekin.
Umboðsmaður taldi annmarkana þó ekki þess eðlis að unnt væri að slá því föstu að þeir hefðu ráðið úrslitum um ákvörðun Vegagerðarinnar að hætta við ráðninguna þannig að ástæða væri til tilmæla um að rétta bæri hlut mannsins hvað þá snerti. Mæltist hann hins vegar til að Vegagerðin tæki framvegis mið af sjónarmiðunum í álitinu.
Álit umboðsmanns í máli nr. 10689/2020