06. apríl 2022

Undanþága frá auglýsingaskyldu við sérstakar aðstæður

Almennt er skylt að auglýsa laus störf hjá hinu opinbera. Reglur um þessi mál eru tiltölulega skýrar en ítrekað hafa komið fram athugasemdir og kvartanir til umboðsmanns um að þeim hafi ekki verið fylgt.

Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er mælt fyrir um að önnur störf en embætti skuli auglýsa opinberlega samkvæmt reglum sem fjármála- og efnahagsráðherra setji. Í þessum reglum er það meginreglan að auglýsa skuli laus störf en þau tilvik þegar ekki er skylt að auglýsa störf eru afmörkuð sérstaklega. Undanþágur frá auglýsingaskyldu eiga t.d. við um störf sem aðeins eiga að standa í tvo mánuði eða skemur og störf sem eru tímabundin vegna sérstakra aðstæðna enda sé ráðningunni ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt. Á sú undanþága við þegar starfsmaður sem gegnir starfinu er tímabundið í leyfi t.d. vegna orlofs, veikinda, námsleyfis og því um líkt.

Á þetta reyndi í máli þar sem kvartað var yfir tímabundinni ráðningu í starf hjá Vegagerðinni. Þar hafði tiltekið starf verið auglýst laust til umsóknar en fljótlega hætt við að ráða í það og starfsmaður Vegagerðarinnar þess í stað ráðinn tímabundið í rúma sex mánuði. Í rökstuðningi fyrir því var vísað til fyrrnefndrar undanþágu frá auglýsingaskyldunni vegna sérstakra aðstæðna sem höfðu skapast vegna heimsfaraldurs COVID-19. Umboðsmaður féllst ekki á að um sérstakar aðstæður hefði verið að ræða í skilningi reglnanna. Sú undanþága ætti eingöngu við um þær aðstæður þegar starfsmaður væri forfallaður frá vinnu og nauðsynlegt reyndist að leysa hann af. Þegar starf yrði laust vegna þess að starfsmaður hætti væri ekki um sérstakar aðstæður að ræða. Því hafi ekki verið heimilt að ráða í hið lausa starf án auglýsingar. Mæltist hann til þess að Vegagerðin tæki framvegis mið af þessum sjónarmiðum.

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 10592/2020