Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála gætti ekki að rannsóknarskyldu sinni þegar hún staðfesti ákvörðun byggingarfulltrúa að stöðva framkvæmdir við íbúðarhús í sveitarfélagi.
Þetta er niðurstaða umboðsmanns í áliti þar sem hann tók til athugunar hvort úrskurðarnefndin hefði haft fullnægjandi forsendur til að staðfesta ákvörðun byggingarfulltrúa um að stöðva framkvæmdir með vísan til þess að hæð hússins væri ekki samræmi við deiliskipulag og uppfærða uppdrætti hússins.
Umboðsmaður benti á að í málinu hefði verið uppi vafi um hvort umrædd bygging væri í samræmi við gildandi byggingarleyfi en eigandi hússins hefði mótmælt því að hafa óskað eftir þeim breytingum sem höfðu verið gerðar á útgefnu byggingarleyfi af hálfu byggingarfulltrúans. Það hefði verið hlutverk úrskurðarnefndarinnar að ganga úr skugga um hvort breytingin hefði verið gerð með réttum hætti og hefði þar með getað orðið tilefni til að stöðva framkvæmdirnar. Þá benti hann á hvers kyns frávik frá deiliskipulagi gæti ekki eitt og sér leitt til þess að heimilt væri að stöðva framkvæmdir og ríkt tilefni hefði verið fyrir nefndina að taka öll atvik og málsmeðferð byggingarfulltrúans til heildstæðrar skoðunar.
Þær athugasemdir sem umboðsmaður gerir í álitinu koma í framhaldi af nýlegu áliti hans sem jafnframt laut að rannsókn og málsmeðferð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í tengslum við undirbúning skipulagsbreytinga og leyfisveitinga, sbr. mál nr. 11237/2021.
Álit umboðsmanns í máli nr. 11049/2021