09. mars 2022

Rannsókn úrskurðarnefndar þegar deilt er um hvort skipulagsframkvæmdir séu leyfisskyldar

Sveitarfélögum ber að haga undirbúningi skipulagsbreytinga og leyfisveitinga þannig að mögulegt sé fyrir þá sem eiga hagsmuni að fylgjast með framgangi slíkra mála og gera athugasemdir. Þau sem málin kunna að varða þurfa að geta áttað sig á því hvað felst í viðkomandi framkvæmd eða byggingu í heild sinni. Þannig þarf að gæta þess að skipta málsmeðferðinni ekki upp í hluta sem dregur úr yfirsýn á eðli og gerð þeirrar framkvæmdar eða byggingar sem um ræðir.

Umboðsmaður áréttar þetta í áliti þar sem deilt var um hvort stækkun bílskúrs í Garðabæ hefði einvörðungu verið tilkynningarskyld, eins og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála byggði á, eða hvort sækja hefði þurft um byggingarleyfi vegna framkvæmdanna.

Í athugun umboðsmanns reyndi einkum á hvort nefndin hefði gætt nægilega að rannsóknarskyldu sinni. Í ljósi allra málavaxta og með tilliti til réttaröryggis þeirra sem í hlut áttu yrði ekki fallist á að kæra til nefndarinnar hefði eingöngu lotið að því hvort formleg skilyrði samkvæmt byggingarreglugerð fyrir viðbyggingu við bílskúr væru uppfyllt. Sveitarfélaginu hefði borið að taka afstöðu til þess hvort framkvæmdirnar væru byggingarleyfisskyldar vegna breyttrar notkunar bílskúrsins til viðbótar við það að kanna hvort formskilyrði byggingarreglugerðar væri fullnægt. Úrskurðarnefndinni hefði að sama skapi borið að rannsaka hvort það hefði verið gert. Á það hefði skort og málsmeðferð nefndarinnar því ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög.

Beindi umboðsmaður því til nefndarinnar að taka málið til meðferðar á ný ef eftir því yrði leitað og leysa þá úr því í samræmi við álitið. Jafnframt upplýsti hann Garðabæ um álitið með það í huga að tekin yrði afstaða til þess hvort tilefni væri til að taka almennt verklag sveitarfélagsins til skoðunar. Í ljósi fyrri samskipta var álitið einnig sent til Skipulagsstofnunar.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 11237/2021

  

  

Tengd frétt

Samráð og aðkoma almennings að skipulagsmálum sveitarfélaga