13. maí 2022

Synjun á beiðni um að breyta nafni félags ekki í samræmi við lög

Umboðsmaður mælist til þess að beiðni Landssambands æskulýðsfélaga um að breyta heiti sínu í Landssamband ungmennafélaga verði tekin upp að nýju ef eftir því verði leitað.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið staðfesti ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra að synja sambandinu um þessa breytingu. Í úrskurði ráðuneytisins var byggt á því að breytingin gæti valdið hættu á ruglingi við Ungmennafélag Íslands. Því síðarnefnda væri falið tiltekið hlutverk með íþróttalögum og gert ráð fyrir að það væri landssamband ungmennafélaga í landinu.  

Umboðsmaður benti á að skrá mætti heiti í firmaskrá sem þegar væri skráð svo fremi að það væri glögglega greint frá þegar skráðu heiti með viðauka eða öðrum hætti. Við skráningu firmaheitis bæri fyrst og fremst að líta til heitanna sjálfra og meta líkindi þeirra út frá heitunum sem slíkum. Nöfnin tvö væru ekki þau sömu og ekki yrði séð að þau væru, ein og sér, þess eðlis að ekki væri hægt að greina þau glöggt hvort frá öðru. Úrskurður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hefði ekki verið í samræmi við lög.

Þá fann umboðsmaður einnig að því að í úrskurðinum hefði verið vísað í fjölda lagaákvæða og sjónarmið reifuð án þess að ætíð væri fyllilega skýrt hvaða þýðingu þau hefðu fyrir niðurstöðu málsins. Því hefði verið erfiðleikum bundið fyrir aðila málsins að átta sig á efnislegum forsendum niðurstöðu ráðuneytisins og meta réttarstöðu sína með hliðsjón af því. Rökstuðningurinn hefði því ekki uppfyllt kröfur stjórnsýslulaga.

  

   

Álit umboðsmanns í máli nr. 10675/2020