16. maí 2022

Svigrúm lögreglu og ríkissaksóknara vegna rannsókna sakamála

Umboðsmaður telur ekki forsendur til að gera athugasemdir við ákvörðun ríkissaksóknara að staðfesta niðurstöðu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að hætta rannsókn á ætlaðri líkamsárás vegna fyrningar. Aftur á móti beinir hann þeim tilmælum til ríkissaksóknara að taka framvegis mið af sjónarmiðum í áliti sínu við meðferð heimilisofbeldismála.

Kvartað var yfir niðurstöðu ríkissaksóknara með vísan til þess að háttsemi kærða væri ekki fyrnd. Byggðist það á því að ákvæði almennra hegningarlaga um brot í nánu sambandi ætti við. Athugun umboðsmanns beindist einkum að því hvort rannsókn málsins, m.t.t. mögulegs brots í nánu sambandi, hefði verið fullnægjandi og þá að mati lögreglu og saksóknara á því að það ákvæði ætti ekki við. Þótt hann gerði ekki athugasemd við þá niðurstöðu stjórnvalda að brotið næði ekki því alvarleikastigi sem ákvæðið gerði kröfu um, þegar um einstakt tilvik væri að ræða, þá benti hann á að endurtekin háttsemi sem staðið hefði yfir í lengri eða skemmri tíma þannig að telja mætti að viðvarandi ógnarástand hefði skapast gæti einnig fallið undir það. Af gögnum málsins yrði ekki ráðið að sú sem kvartaði, eða móðir hennar, hefðu borið við endurtekinni háttsemi kærða eða að það hefði sérstaklega verið kannað við rannsókn lögreglu. Þótt einungis lægi fyrir kæra vegna einstaks atviks kynni, í þessu samhengi, að vera tilefni til að ganga úr skugga um hvort um endurtekna háttsemi væri að ræða. Í þeim efnum væri ekki fullnægjandi að lögregla kannað það eingöngu í málaskrá sinni.

Af gögnum málsins og í ljósi þess svigrúms sem ákæruvaldið hefði taldi umboðsmaður þó ekki forsendur til að hagga mati ríkissaksóknara en mæltist til að hann tæki framvegis mið af sjónarmiðunum í álitinu við meðferð heimilisofbeldismála.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 11359/2021