30. maí 2022

Vinnsla persónuupplýsinga í löggæslutilgangi og valdsvið Persónuverndar

Ákvæði í lögum um meðferð sakamála kemur ekki í veg fyrir að Persónuvernd geti fjallað um kvartanir sem lúta að meðferð héraðssaksóknara á gögnum sem lagt er hald á í tengslum við sakamálarannsókn á grundvelli laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.

Persónuvernd vísaði kvörtun frá á þeim forsendum að það félli utan valdsviðs stofnunarinnar að fjalla um kvörtunarefnið því samkvæmt lögum yrði að bera það undir dómstóla. Umboðsmaður benti á að í lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi væri sérstaklega mælt fyrir um rétt til að fá úr því skorið með kvörtun til Persónuverndar hvort vinnsla persónuupplýsinga hjá lögbæru yfirvaldi, svo sem héraðssaksóknara, bryti í bága við ákvæði laganna. Persónuvernd bæri því skylda til að fjalla um kvartanir sem þessa.

Liðlega eitt og hálft ár leið frá því að kvörtunin barst Persónuvernd og þar til úrskurður lá fyrir. Með hliðsjón af því að stofnunin viðurkenndi að um óhæfilegan drátt hefði verið að ræða á meðferð málsins og baðst afsökunar lét umboðsmaður við það sitja að benda á sjónarmið sem gilda um skilvirka málsmeðferð stjórnvalda. Svo sem að gera verði ríkari kröfur en ella til málshraða þegar stofnun telji erindi falla utan valdsviðs síns þannig að vísa beri því frá án efnislegrar meðferðar.

 

    

Álit umboðsmanns í máli nr. 11342/2021