09. júní 2022

Mat á hæfni verður að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum

Þrátt fyrir ákveðið svigrúm sem stjórnvald hefur við ráðningu í opinbert starf hefur það ekki frjálsar hendur þegar fleiri en einn umsækjandi telst hæfur.

Kvartað var yfir ráðningu Þjóðminjasafns Íslands í starf til sex mánaða í tengslum við átaksverkefnið „Hefjum störf“ á vegum Vinnumálastofnunar. Í skýringum safnsins á ráðningunni var m.a. bent á að líta mætti til þess að umsækjandi gæti haft of mikla hæfileika og menntun. Ennfremur að vegna eðlis úrræðisins væri heimilt að líta til sjónarmiða um það hvaða umsækjandi hefði betri not af því en aðrir. 

Umboðsmaður benti á að teldi stjórnvald að meiri menntun eða starfsreynsla en áskilin væri að lágmarki í starfsauglýsingu gæti komið niður á væntanlegri frammistöðu, t.d. þar sem slíkur starfsmaður myndi ekki ílengjast í starfi, yrði það að geta rökstutt mat sitt í þeim efnum. Það kæmi þó vart til álita í þessu tilfelli þar sem starfið hefði einvörðungu verið til takmarkaðs tíma og því ómálefnalegt að leggja þetta til grundvallar. Þá væri það sjónarmið safnsins að ráða þann sem starfið kynni að gagnast best, eins og atvikum var háttað, hvorki í samræmi við regluna um bann við óbeinni mismunun vegna aldurs né meginregluna um að velja skuli hæfasta umsækjandann. Hvað snerti aðgang að gögnum og upplýsingum sem sóst var eftir um ráðninguna taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá endurskoðuðu ákvörðun um aðgang sem Þjóðminjasafnið tók meðan á meðferð málsins stóð hjá umboðsmanni.

Þrátt fyrir annmarka á meðferð málsins taldi umboðsmaður ólíklegt að það leiddi til ógildingar á ráðningunni. Allt að einu mæltist hann til þess að Þjóðminjasafnið leitaði leiða til að rétta hlut viðkomandi. Að öðru leyti yrði það að vera dómstóla að meta réttaráhrif þessa ef til kæmi.

 

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 11339/2021