13. júní 2022

Leiðbeiningarskylda vegna kæruheimildar

Héraðssaksóknari sinnti ekki leiðbeiningarskyldu sinni um að kæra mætti ákvörðun hans um að afhenda ekki brotaþola gögn sem óskað hafði verið eftir, til ríkissaksóknara. Þá átti ályktun ríkissaksóknara í framhaldinu, um að héraðssaksóknari hefði bent á að synjunin sætti kæru til ríkissaksóknara, sér ekki stoð í gögnum málsins.

Ríkissaksóknari vísaði frá kæru vegna ákvörðunar héraðssaksóknara um að synja beiðni um gögn. Byggðist niðurstaða þess fyrrnefnda á því að kærufrestur hefði verið liðinn og ekki væru uppfyllt skilyrði til að taka kæruna til meðferðar eftir hann. Vísaði ríkissaksóknari meðal annars til þess að skilja hefði mátt tölvubréf héraðssaksóknara þannig að leiðbeint hefði verið um kæruheimild vegna synjunar gagnabeiðninnar, þegar áréttað hefði verið að kæra mætti aðra ákvörðun hans til ríkissaksóknara.

Umboðsmaður féllst ekki á þetta heldur benti á um væri að ræða sitt hvora stjórnvaldsákvörðunina sem sættu mismunandi kærufresti. Þá haggaði það ekki lögbundinni skyldu héraðssaksóknara til að leiðbeina, þótt viðkomandi hefði notið aðstoðar lögmanns. Með tilliti til ákvæða stjórnsýslulaga og út frá atvikum málsins yrði að teljast afsakanlegt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti. Þar sem hún hefði jafnframt borist innan árs, frá því að ákvörðun héraðssaksóknara var tilkynnt, hefðu skilyrði verið uppfyllt til að ríkissaksóknara væri heimilt að taka hana til meðferðar. Mæltist umboðsmaður til að það yrði gert ef eftir því yrði leitað.

  

  

Álit umboðmanns í máli nr. 11368/2021