22. júní 2022

Birting áskorunar um kröfulýsingu í Lögbirtingablaði ekki í samræmi við lög

 

Hvorki Ferðamálastofa né atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fóru að lögum í tengslum við uppgjör á tryggingu sem reidd hafði verið fram við útgáfu ferða-skrifstofuleyfis.

 

  

Í kjölfar breytinga á lögum taldi eigandi ferðaskrifstofunnar sig ekki lengur þurfa á leyfinu að halda. Í erindi til Ferðamálastofu lýsti hann einnig efasemdum sínum um að hann hefði yfir höfuð þurft leyfið samkvæmt eldri lögum. Þá óskaði hann eftir leiðbeiningum um hvernig hann fengi trygginguna endurgreidda. Ferðamálastofa féllst á að starfsemin væri ekki lengur leyfis- og tryggingarskyld sem ferðaskrifstofa. Erindið væri skilið þannig að óskað væri eftir að leyfið yrði fellt niður. Það þyrfti þá að auglýsa og kalla eftir kröfum í Lögbirtingablaði sem og var gert. Eigandi félagsins benti í kjölfarið á að hann hefði ekki óskað eftir niðurfellingu leyfis heldur að sú ákvörðun að veita það yrði endurupptekin. Ennfremur hefði hvorki verið um að ræða rekstrarstöðvun né gjaldþrot hjá félaginu. Birting áskorunarinnar í Lögbirtingablaði hefði því verið til þess fallin að valda félaginu verulegu tjóni að ósekju.

  

Athugun umboðsmanns beindist einkum að því hvort úrskurður þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis sem staðfesti ákvörðun Ferðamálastofu, hefði byggst á fullnægjandi lagagrundvelli. Þar sem ekkert hefði legið fyrir um rekstrarstöðvun eða gjaldþrot félagsins hefðu skilyrði þágildandi laga fyrir birtingu áskorunar um kröfulýsingu í Lögbirtingablaði ekki verið uppfyllt. Ákvörðun Ferðamálastofu þar að lútandi, vegna uppgjörs á tryggingu félagsins, hefði því ekki verið í samræmi við lög. Sama gegndi um úrskurð ráðuneytisins hvað þetta snerti.

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 11354/2021