29. júní 2022

Ábendingar og tilmæli vegna sjúklinga á öryggisgangi réttargeðdeildar Landspítala

 

Í frumkvæðisathugun umboðsmanns er komið á framfæri ábendingum og tilmælum til ráðherra, Alþingis og Landspítala vegna vistunar sjúklinga á öryggisgangi réttargeðdeildar á Kleppi. Að verulegu leyti er um að ræða áréttingu ábendinga sem áður hafa komið fram í OPCAT-skýrslum umboðsmanns en athugun umboðsmanns þessu sinni tók einnig mið af upplýsingum um vistun sjúklinga á öryggisgangi allra síðustu ár.

 

 

Frá því að OPCAT-eftirlit umboðsmanns hófst árið 2018 hefur embættið fylgst með aðbúnaði sjúklinga á geðdeildum og bent á ýmislegt sem betur má fara í þeim efnum, einkum hvað snertir lagalega umgjörð vistunarinnar. Í nýrri frumkvæðisathugun embættisins er fjallað um framkvæmd og grundvöll vistunar sjúklinga á svokölluðum öryggisgangi réttargeðdeildar á Kleppi á Landspítala þar sem einkum dvelja menn sem dæmdir hafa verið til vistunar á „viðeigandi hæli“ á grundvelli hegningarlaga.

 

Tildrög athugunarinnar voru m.a. umfjöllun í fjölmiðlum um vistun og aðbúnað sjúklinga á öryggisganginum. Umboðsmaður taldi ljóst að vistun þar fæli að öllu jöfnu í sér íþyngjandi ráðstöfun fyrir sjúkling umfram þær almennu takmarkanir á frelsi sem óhjákvæmilega leiddu af dómi og inngrip í stjórnarskrárvarinn rétt til friðhelgi einkalífs. Í álitinu segir meðal annars.

 

„Það er álit mitt að ekki séu fyrir hendi fullnægjandi heimildir í lögum til vistunar á öryggisgangi réttargeðdeildar, eins og því úrræði hefur verið lýst af hálfu Landspítala í ýmsum tilvikum. Þá bendi ég á að engar sértækar reglur er að finna í gildandi lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum um nánari málsmeðferð við töku ákvarðana um vistun á öryggisgangi deildarinnar eða möguleikum sjúklings til endurskoðunar. Téður skortur á lagalegri umgjörð og aðhaldi kann að skapa hættu á því að vistun á öryggisgangi verði lengri en efni standa til auk þess sem líkur á misbeitingu úrræðisins verða óhjákvæmilega meiri en ella.“

 

Umboðsmaður áréttar því fyrri tilmæli sín til heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra sem og Alþingis um að tekin verði afstaða til þess hvort og þá með hvaða hætti rétt sé að bregðast við skorti á lagaheimildum í þessum efnum, ef á annað borð sé talið nauðsynlegt að viðhafa þá starfshætti á réttargeðdeild Landspítala sem frá er greint, og eftir atvikum á lokuðum deildum annarra heilbrigðisstofnana.

 

Þá bendir hann á að það skorti reglur um málsmeðferð vegna vistunar á öryggisgangi. Til að mynda séu engar reglur um skilyrði og tímalengd vistunar eða hverjir séu bærir til að taka ákvörðun þar að lútandi. Nauðsynlegt sé að búa meðferð þessara mála tryggari og vandaðri umgjörð í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum en nú sé.

 

Fram kom af hálfu Landspítala að sjúklingum séu ávallt veittar leiðbeiningar um kæruleiðir og þeir almennt upplýstir um réttindi sín en einnig að þar sem settra lagareglna njóti ekki við um ákvarðanir um vistun á öryggisgangi væri ekki fyrir hendi heimild til að kæra ákvörðun þar að lútandi. Í samræmi við það sem rakið er í áliti umboðsmanns um kæruheimild til æðra stjórnvalds og eðli ákvörðunar um vistun á öryggisgangi er þó ekki fallist fyllilega á þessa afstöðu spítalans.

 

Álit umboðsmanns í máli F105/2021