15. ágúst 2022

Útgáfa læknisvottorðs var liður í heilbrigðisþjónustu

Útgáfa læknisvottorðs, sem héraðsdómari aflaði á grundvelli lögræðislaga, var liður í að veita heilbrigðisþjónustu og því hægt að kvarta yfir henni til landlæknis.

Þetta er niðurstaða umboðsmanns í máli þar sem deilt hafði verið fyrir dómi um kröfu ættingja konu um að svipta hana lögræði. Við meðferð dómsmálsins gaf læknir út vottorð um heilsufar konunnar. Hún kvartaði yfir vottorðinu til landlæknis á þeim grunni að læknirinn hefði gert mistök við útgáfu þess. Landlæknir taldi að kvörtunin lyti ekki að veitingu heilbrigðisþjónustu og konan gæti því ekki kvartað yfir vottorðinu til embættisins. Heilbrigðisráðuneytið staðfesti afstöðu landlæknis og vísaði stjórnsýslukæru hennar því frá. 

Sú sem kvartaði til umboðsmanns lést á meðan málið var til meðferðar en með hliðsjón af almennri þýðingu þess ákvað hann að ljúka athugun sinni með áliti. Umboðsmaður taldi að leggja yrði til grundvallar að vottorð læknis um eigin sjúkling væri liður í þeirri heilbrigðisþjónustu sem samband þeirra byggðist á. Með tilliti til þeirra sjónarmiða sem byggju að baki sviptingu lögræðis yrði, í þessu tilviki, að líta svo á að konan hefði átt lögvarinn rétt til að kvarta yfir ætluðum mistökum læknisins við það hvernig hann greindi heilsufar hennar í vottorðinu. Landlækni hefði því borið að taka kvörtunina yfir störfum læknisins til meðferðar á þeim grundvelli. Öndverð afstaða ráðuneytisins hefði ekki samræmst lögum. Vegna andláts konunnar voru ekki efni til að beina tilmælum til ráðuneytisins um að rétta hlut hennar en umboðsmaður mæltist til þess að framvegis yrðu tekin mið af sjónarmiðunum í álitinu. Jafnframt sendi hann landlækni það til upplýsinga. 

  

  

Álit umboðmanns í máli nr. 11296/2021