17. ágúst 2022

Norrænir umboðsmenn funda í Reykjavík

Fundur umboðsmanna þjóðþinganna á Norðurlöndum hófst í gær og lýkur í dag í Reykjavík.  Þar bera þeir saman bækur sínar og fara yfir helstu viðfangsefni hverju sinni.

  

Umbodsmenn og co (2).JPG

  

Umboðsmenn og starfsfólk þeirra frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Noregi og Svíþjóð sækja fundinn ásamt umboðsmanni Alþingis og samstarfsfólki. Meðal annars er fjallað um hvernig embættin tókust á við COVID-19 og möguleg áhrif faraldursins á stjórnsýsluna til framtíðar, rætt um þróun rafrænnar stjórnsýslu, eftirlit umboðsmanna með stjórnsýslu sem fram fer á erlendri grundu og svonefnt OPCAT-eftirlit embættanna. Meðal umræðuefna er einnig innra skipulag umboðsmannsembættanna og sú þróun að kvörtunum hefur fjölgað hvarvetna undanfarin misseri án þess að einhver einhlít skýring þess blasi við.

„Embætti umboðsmanns Alþingis er stofnað að norrænni fyrirmynd og í framkvæmd embættisins hefur mjög verið litið til þess sem gerist hjá systurstofnunum okkar á Norðurlöndunum. Svona fundir eru fyrst og fremst mikilvægt tækifæri til að styrkja tengsl þessara stofnana, skiptast á skoðunum og deila reynslu okkar,“ segir Skúli Magnússon.

Alla jafna er þessi fundur haldinn annað hvert ár en að þessu sinni eru þó fjögur ár liðin frá þeim síðasta sem fram fór í Finnlandi. Til stóð að fundurinn yrði haldinn hér á landi árið 2020 en fresta þurfti honum um tvö ár vegna heimsfaraldursins.