06. september 2022

Frávísun á gjafsóknarbeiðni ekki í samræmi við lög

Dómsmálaráðuneytinu var óheimilt að vísa gjafsóknarbeiðni frá á þeirri forsendu einni að upplýsingar um fjárhagsstöðu maka hefðu ekki verið afhentar, án þess að tekin væri afstaða til allra þeirra gjafsóknarheimilda sem byggt var á í umsókn.

Í kvörtun til umboðsmanns var einkum byggt á að ákvæði reglugerðar, þar sem mælt er fyrir um að líta skuli til fjárhagsstöðu maka vegna gjafsóknar, skorti lagastoð. Þá laut kvörtunin einnig að því að umsókninni hefði verið vísað frá án þess að tekin væri afstaða til allra þeirra gjafsóknarheimilda sem hún hefði tekið til.

Umboðsmaður féllst á það síðarnefnda og benti á að tiltekin gjafsóknarheimild sem byggt hefði verið á í umsókninni væri ótengd fjárhagslegri stöðu umsækjanda. Umsóknin hefði verið skýr og studd gögnum hvað þetta varðaði og hefði ráðuneytinu því borið að taka afstöðu til þess þáttar umsóknarinnar. Aftur á móti taldi umboðsmaður m.t.t. forsögu laga um meðferð einkamála, auk annars, að ákvæði reglugerðarinnar viðvíkjandi fjárhagsstöðu maka ættu sér nægilega stoð í lögum. Engu að síður hefði ráðuneytinu borið að taka afstöðu til umsóknarinnar að því marki sem hún byggðist á öðrum þáttum. Mæltist hann til að ráðuneytið tæki málið upp að nýju ef eftir því yrði leitað og leysti þá úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 11652/2022