Vinnuregla sem nefnd um eftirlit með störfum lögreglu setti sér sjálf og vísaði til í rökstuðningi fyrir að afhenda ekki gögn átti sér ekki lagastoð.
Kvartað var yfir að nefndin hefði ekki afhent gögn sem óskað hefði verið eftir og hvorki tekið fullnægjandi afstöðu til beiðni um þau né gert viðhlítandi grein fyrir á hvaða lagagrundvelli hefði verið leyst úr henni. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort niðurstaða nefndarinnar um að hún væri ekki bær til að taka afstöðu til beiðninnar hefði verið í samræmi við lög.
Nefndin taldi sig ekki geta orðið við ósk um gögnin þar sem hún væri ekki bær til að ákveða fyrir einstök embætti og stofnanir hvort fólk ætti rétt á upplýsingum og gögnum sem ættu ekki uppruna sinn hjá henni. Vísaði hún til þess að þetta væru vinnugögn og virtist það fela í sér að hún hefði einvörðungu fengið þau á grundvelli lagaskyldu og jafnframt að það væri ekki hennar að taka afstöðu til beiðni um gögnin. Var síðarnefnda atriðið einungis rökstutt með vísan til fyrrnefndrar vinnureglu.
Umboðsmaður benti á að það færi ekki á milli mála að nefnd um eftirlit með lögreglu væri stjórnvald og bæri að gæta skráðra og óskráðra reglna stjórnsýsluréttar, þ. á m. um varðveislu og aðgang að gögnum. Óumdeilt væri að gögnin, sem óskað hefði verið eftir aðgangi að, lægju fyrir hjá nefndinni. Þar sem hún hefði ekki tekið afstöðu til beiðninnar með viðeigandi hætti mæltist umboðsmaður til þess að nefndin tæki málið fyrir á ný, ef eftir því yrði leitað, og leysti þá úr í því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu.
Álit umboðsmanns í máli nr. 11504/2022